Kúmen ruined my life

Síðasta sumar fór ég tvisvar hringinn í kringum landið með Eddu Björgvinsdóttur og leikritið hennar Brilliant Skilnaður, voða gaman alveg.  Ég reyndar breyttist aðeins við að fara með henni þessa ferð.  Því eins og flestir sem þekkja Eddu mína vita þá er hún mikill matarspekúlant og veit hreinlega allt sem hægt er að vita um matarræði.  Eftir einn mánuð var ég búin að missa 6 kíló því Edda var stöðugt að segja mér hvaða dauðagildrur lægju í matargerð í ESSO sjoppum úti á landi.  Eftir þessa tvo mánuði var ég farin að stressast algjörlega upp og þorði ekki fyrir mitt litla líf að neyta neins nema kannski ef ég fengi það póstsent frá maður lifandi.  Nú er aftur komið sumar og minningarnar hellast yfir mig og ég finn mig knúna að gera upp mín matarmál við Eddu ef ég á einhvern tímann eftir að lifa eðlilegu grilllífi með tengdafjölskyldu minni þetta sumarið.  Hugrökk sem ég er hef ég ákveðið að skrifa Eddu bréf og ljúka þessum matarharmleik í eitt skipti fyrir öll.   Hér fyrir neðan er bréfið ......

Kæra vinkona 

Mig langar aðeins að koma inná matarræði þitt Edda mín, ef matarræði skildi kalla, frekar ætti að kalla þetta matar ÆÐI.  Því þetta er náttúrulega ekki eðlilegt.  Það getur engin lifað á sjálftýndum aspas, andlegum maísbaunum eða sjálfdauðum kúmen fræjum og gengið um og haldið að lífið sé betra.  Það er ástæða fyrir því Edda að tófu var ekki fundið upp í gamla daga, vegna þess að tófu er aðal matardjókurinn, ekkert bragð bara gúmmítengingar búnir til úr bönnuðum svifryks nagladekkjum,.  Heilsuosturinn sem þú síðan reynir iðulega að troða ofaní mig komst ég að um daginn að eru ónýtar mottur leigðar út frá Fönn í faxafeni.  Svo nærri dauða en lífi af þessu matar ÆÐI þarftu að taka aspargífílus, blómadropa, litlar lyga svikapillur úr þrúgusykri og ég veit ekki hvað.  Eftir að hafa orðið fyrir þér og þínum matarskæruhernaði, er orðin dauðhrædd við að borða, t.d ég má ekki grilla með álpappír, þá fæ ég alsheimer, ekki tannbursta mig því það er bara klór eitur eða eitthvað, ekki drekka neitt sem heitir light eða diet eða sykurlaust því líkaminn springur á sumarsólstöðum.  Ekki labba aftur á bak vegna móðgunar við vatnleystu kúmenbörnin, ekki drekka kaffi því taugakerfið lamast, ekki borða fisk, því það er svo mikill kísill í honum, ekki borða kjúkling vegna þess að þeir eru svo óhamingjusamir, ekki borða kjöt því það eru svo miklar sýrur í því, ekki borða hveiti ég man nú reyndar ekki afhverju.  Eina sem ég virðist mega borða er spelt, uuu spelt og jú alveg rétt spelt.  Ég er gífurlega óhamingjusöm, hrædd og orðin ein taugahrúga, byrjuð að stama og ligg í fósturstellingunni undir eldhúsborði og sýg spelt teninga milli kvíða klósettferða.  Héðan í frá mun lífsmottóið mitt breytast úr brostu við heiminum og heimurinn brosir við þér yfir í Kúmen ruined my LIFE....................... 

Bless , hlakka til að heyra í þér Edda mín, kem í kaffi latte bráðlega og mun nota mjólk beint úr kúnni.   p.s takk fyrir hveitigrassafann sem þú sendir mér með DHL um daginn frábært að þrífa flísarnar með honum, ég mæli með honum við aðra iðnaðarmenn..

 Kveðja Garún 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Garún Garún Garún! Þú drepur mig! Hef ekki hlegið svona mikið í mörg ár - og þindin mun ekki bera sitt barr eftir þetta - komin með hlaupasting í eitthvað líffæri!

Halldóra Halldórsdóttir, 12.6.2007 kl. 22:42

2 Smámynd: Thelma Ásdísardóttir

Já, endalaust þetta spelt!!! Allt á vera úr spelti í dag og maður fær svona augnaráð: "æi hvað þú ert eitthvað glötuð", ef maður er svo óforskammaður að borða eitthvað úr hveiti :) Er viss um að eftir nokkur ár verður spelt taliðstórhættulegt!

Thelma Ásdísardóttir, 13.6.2007 kl. 08:48

3 Smámynd: Álfhóll

Sæl elsku Garún.

Fann út í gegnum Dóruna okkar að þú ert komin í netheima og auðvitað "með trukki". Vertu velkomin.

Guðrún

Álfhóll, 13.6.2007 kl. 10:13

4 Smámynd: Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir

Þú ert ein af fáum manneskjum sem ég þekki sem fær mig til að grenja úr hlátri! Ég fæ svo óstöðvandi hláturskrampa að ég þarf að leggja mig á eftir - you funnybone you! Ég er með gjöf til þín ... spínatböggla með alfaalfaspírum útá!

Guðbjörg Edda Björgvinsdóttir, 14.6.2007 kl. 12:23

5 Smámynd: Garún

Takk Edda mín, en sá dagur sem ég kem til þín og borða spínatböggla með grískastafrófsspírum, er sami dagurinn og ég ákveð að saga af mér aðra löppina án svæfinga úti í bílskúr og bý til abstraktlistaverk sem ég mun kalla SPÍNAT og FÉLAGAR.  Þessi dagur er svona cirka tveimur vikum eftir að blindir fái bílpróf.

Garún, 14.6.2007 kl. 12:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband