Eldamennska fortíðar

Ég ætla að segja  ykkur smá sögu af sjálfum mér.  Ég er ekki endilega stolt af mér en ég finn mig knúna til að skrifta og játa.  Þannig er mál með vexti að ég er hörmulegur kokkur, mig vantar eldunargenið.  Munið bókina " Kona eldhús Guðsins" eftir Amy Tan?  Ég er "kona eldhús djöfulsins".  

Ég man fyrst þegar reyndi á eldunarhæfileika mína, ég var fimmtán ára gömul og hafði ráðið mig sem ráðskona í Fljótshlíðinni.  Þetta var auðvelt, bærinn var með hestaferðir og mitt verksvið var að skipta á rúmunum og undirbúa morgunmat fyrir ferðamennina.  Mjög auðvelt.  Einn daginn veikist húsfreyja mín og þarf að leggjast inná spítala í Reykjavík.  Bóndinn er í sex daga hestaferð og hún skilur mig eftir en segir mér að þegar þau koma daginn eftir um kvöldið, verð ég að hafa eldað eitthvað ofaní þau.  Ekkert mál sagði ég og blés toppinn til hægri.  Næsta dag naut ég þess að vera ein á býlinu, svaf lengi, fór í göngutúr og sólbað.  Svona um fjögur leytið ákvað ég að kíkja á hvað væri til í matvælum.  Ég komst nú ekki inní eldhúsið þar sem ég tafðist aðeins í stofunni, þar var bók á borði sem hét "Galdrar á Íslandi" þetta fannst mér spennandi og byrjaði að lesa.  Gleymdi mér alveg.  Þegar ég leit uppúr bókinni og á veggklukkuna sá ég mér til skelfingar að klukkan var hálf sjö.  Ég þaut inní eldhús og leit útum gluggann.  Í fjarska sá ég reykský og í áttina að mér reið 15 manna hópur þeysireið til mín.  Ég man ég öskraði og spólaði að frystikistunni, opnaði hana og leit oní.  Allt oní henni var hélað og gaddfreðið með snjósköflum.  Allt nema eitt.  Risastór fjólublá bjúga, lá í hring og ég greip hana.   Hún var svo frosin að ég hefði getað drepið mann með henni.  En nú þýddi ekkert að hugsa um það.  Jæjja "hvernig eldar maður bjúgu?"  hugsaði ég með mér en sá nú að ferðalangarnir voru komnir að hliðinu að heimatúninu.  "æi það skiptir ekki" hugsaði ég grenjandi, tók pönnu nógu stóra til að hringurinn kæmist í hana.  Hellti vatni yfir bjúgað og setti helluna á fullt. Hljóp niðrí kjallara í búrið að leyta að einhverju meðlæti.  Ég man að ég ætlaði að finna ananas, hvernig ég gat hugsað mér að hafa ananas með bjúgu er ráðgáta enn þann dag í dag.   Ekkert fann ég að viti í búrinu, en á leiðinni upp gerðist það.   Það var eins og einhver hefði skotið úr fallbyssu, hávaðinn var svakalegur.  Ég kastaði mér niður í stiganum og hjartað barðist ótt og títt.  Eftir smá stund gekk ég upp og inní eldhús......GUÐ MINN GÓÐUR.....Upp um alla veggi og á hverjum einasta bletti á innréttingunni, voru fjólubláar tægjur og kjöt ræmur, og á gluggunum lak fitan niður.  Ég er ekki að ýkja þetta, eldhúsið var eins og manneskja hefði sprungið þar inni.  Útum gluggann sá ég að hestamennirnir voru komnir og stigu af baki.  Drulluþreyttir og svangir.   Eina sem mér datt í hug var að fela mig, sem ég gerði.  Ég skreið undir eldhúsborðið og beið.  Bóndinn kom syngjandi glaður inní eldhúsið en fraus í dyragættinni.  Það var þögn.  Ég andaði ekki einu sinni.   Eftir smá stund, braust út úr manninum mesta hláturkviða sem ég hef heyrt.  Hann hljóp út og náði í mannskapinn og þau stóðu inní eldhúsinu og hlógu sig máttlausa.  Ég heyrði bóndann segja "yes we have this young woman with us, she is wonderful working with the animals and is very hard working, but I have to say, a kitchen is no place for her, and probably never will be.  I hope she marries a cook or else she will starve"...  Það fyndna við þetta var að ég móðgaðist smá og var eiginlega í fýlu allt kvöldið þótt allir væru stöðugt að faðma mig.  Túristarnir tóku myndir af mér í eldhúsinu og allir hjálpuðust við að taka til og elda saman.  Ég var sett í að skræla kartöflur.  Ég veit núna hvað gerðist, auðvitað átti ég að stinga göt á bjúgað, en það var eins gott að ég eldaði þetta ekki því þetta var fjögra ára gömul hestabjúga sem hafði gleymst í frystinum.  

Eru fleiri eins og ég sem kunna ekki að elda? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

ÞÚ ERT STÓRKRÚTT Garún.  Ég er að pissa á mig af hlátri. Djísús.  Vona að Guðbjörg kunni að elda.  Annars eru bændur í vondum málum. 

Ég elska bókina um eldhúsguðinn.

Moi elda eins og Jamie Oliver ef eitthvað þá betur.

Býð þér í mat fljótlega.  Í hestabjúgu.  Muhahahahahahaha

Dreifi þessum auðvitað á alla sem eru skemmtilegir.

Jenný Anna Baldursdóttir, 27.7.2007 kl. 11:58

2 Smámynd: Dagmar

hahahahahahaha  þetta var dásamleg saga! frussaði hádegismatnum á skjáinn á tölvunni þegar ég las þetta

D

Dagmar, 27.7.2007 kl. 12:08

3 Smámynd: Bros

Minn tölvuskjár varð líka fyrir óvæntri gusu og sé ég fram á geta lítið gert vegna þess að nú verð ég að leggjast í þrif á skjá og eyrnapinnainnskotsþrif á lyklaborði.  Þú er óborganleg Gullin....eða var það í Gefn?

Bros, 27.7.2007 kl. 12:17

4 Smámynd: Garún

Fyrirgefið þið frussið.  En kannski eruð þið með bjúgu í kjaftinum sem springa þegar þessi færsla er lesin.  Jenný, takk fyrir matarboðið, ég kem. 

Garún, 27.7.2007 kl. 12:23

5 Smámynd: Elín Arnar

 hahaha ég hef enga tíma fyrir þetta, er að skila blaði í prentsmiðju, gat samt ekki hætt að lesa söguna hún var svo fyndin

Elín Arnar, 27.7.2007 kl. 13:31

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þú hefur nú útbúið ljómandi samlokur handa mér Garún mín.  Ekki þar fyrir að oftast var maður búinn að svelta í 48 tíma, var blautur og kaldur og örmagna.  Þá geta nú ýmsir skrítnir hlutir bragðast alveg ok.

Gaman að sjá að þú ert að blogga og velkomin í bloggtjörnina okkar.  Vertu fegin að þinn staður er ekki "bakvið eldavélina" eins Guðni Ágústsson vill hafa stöllur þínar.  Óborganlega fyndin saga en alls ekki fráleit, svona þegar að maður kkannast við höfundinn.

Jón Steinar Ragnarsson, 27.7.2007 kl. 15:17

7 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Hryllilega, ofboðslega, æðislega fyndin saga! Ég hlæ ekki oft upphátt þegar ég les bloggið, brosi kannski út í annað en núna sprakk ég (eins og bjúgað). Einu sinni kunni matargúrúinn Nanna Rögnvaldardóttir ekki að elda, klúðraði því að sjóða pylsur ... nú býr hún til besta mat í heimi. Vona að þetta matargen fari að poppa inn í mig fljótlega ... virðist þó vera ögn skárri en þú!!! Bóndakonan fór reyndar aldrei á spítala í mínu tilviki, heldur kenndi mér að elda (vondan, íslenskan mat) ...

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 27.7.2007 kl. 15:44

8 Smámynd: Garún

Takk fyrir þetta, en því miður á ég fleiri svona sögur.  EInu sinni hvarf allt vatnið þegar ég sauð Egg.  Sauð það reyndar í 55 mínútur.  Einu sinni ruglaðist ég og setti þrjá bolla af kanil í kanilsnúðana en 3 tsk af hveiti.  

Elsku Jón Steinar, þú hefur sko verið mjög þreyttur þegar þú hefur bragðað samlokurnar mínar.  Enda minnist ég þess tíma þegar þú lognaðist útaf á settinu á Benjamín Dúfu, með reykeitrun og næringaskort...bíddu var það ekki ég sem bjó til samlokurnar þar?????

Garún, 27.7.2007 kl. 16:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband