Fiskisúpa a la eldhúsgeldingur

Áður en uppskriftin hefst vil ég benda á að hver og einn getur útfært "fiskisúpuna" eftir eigin höfði.  Það er auðveldlega hægt að breyta henni í steik, lax, kjúklingasalat eða hreinlega hvað sem er svo framarlega sem grundvallaratriði uppskriftarinnar eru höfð í gildi.  Ég mæli eindregið með þessari uppskrift til að koma maka ykkar á óvart eða nota hana eins og ég gerði - til að ná ykkur í maka.  

Ef þið eruð búin að bjóða í mat klukkan átta um kvöldið, skuluð þið á leiðinni heim úr vinnu koma við á veitingastaðnum "Potturinn og Pannan" í Skipholti og kaupa ykkur tvo skammta af fiskisúpu dagsins.  Hafið engar áhyggjur að þið fáið ekki nóg, þjónarnir þarna eru yndislegir og gefa manni alltaf ríflegan skammt af öllu, og líka heimabakað brauð til að taka með.  

Farið heim með súpuna, takið úr plastílátinu sem þið fenguð hana í og setjið súpuna í uppáhalds tappeware dolluna ykkar.  Beint inní ísskáp með súpuna.  Það er nefnilega alltaf sagt að bestu súpurnar séu þær sem eru upphitaðar.  Setjist svo niður, horfið á sjónvarp eða lesið góða bók.  Það er ekki fyrr en klukkan 19:30 sem þið skuluð standa upp og fara í sturtu.  Klukkan 19:45 skuluð þið setja tvo potta, sleifar, skurðhnífa og ýmis ílát í vaskinn.  Látið renna sjóðandi heitt vatn á þessa hluti (já jafnvel þótt þeir séu hreinir),  Takið síðan súpuna og setjið í pott og beint á eldavélina, hitið súpuna á vægum hita.  Takið steinselju, og byrjið að skera hana, gott svona til hálfs.  Nú ætti gesturinn alveg að fara að koma.  Skrúfið fyrir heitavatnið og setjið leirtauið í vaskagrindina og látið þorna.  ALLS EKKI ganga frá leirtauinu, þetta er allt partur af leikmyndinni.  Nú þarf að hafa hraðann á!  Takið svuntu og setjið hana á ykkur, takið smá af súpunni í matskeið og látið leka á svuntuna með óreglulegu millibili, strjúkið síðan yfir hana með höndunum.  Það er mjög mikilvægt atriði til þess að þessi uppskrift gangi upp að þegar gesturinn kemur að þá eruð þið ekki búin að skera alla steinseljuna.  Þið komið móð og másandi til dyra, rjóð eftir hitann í eldhúsinu og brosandi ykkar fallegasta sparibrosi.  Bjóðið gestinum að sitja með ykkur í eldhúsinu meðan þú "klárar".  Þegar súpan er orðin sjóðandi heit, skulið þið bera hana á borð og strá steinseljunni í munstri yfir hana.  

Meðan á borðhaldinu stendur skuluð þið láta hárfínar athugasemdir falla um matinn til að útiloka allan vafa um eldamennsku ykkar.  T.d. "æi þetta er nú soldið saltað hjá mér er það ekki" og "þetta er líka ekkert svo fitandi, ég notaði léttan rjóma".  

Eftir matinn skuluð þið baða ykkur í hrósinu og horfast í augu við það að þið eruð nútíma manneskjur í nútíma þjóðfélagi sem geta leyst úr hvaða tímavanda sem er.  .....Enda skiptir ekki máli hver gerði helv....súpuna.  

 Heildarkostnaður:  súpa 2.400 Steinselja :145  Brauð :325 Samtals:   2.870


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

BRILLJANT

Jenný Anna Baldursdóttir, 28.7.2007 kl. 12:43

2 Smámynd: Ingveldur Theodórsdóttir

Alveg hrein snilld ;)

Ingveldur Theodórsdóttir, 29.7.2007 kl. 07:43

3 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Það má treysta þér til að finna lausnir sem svínvirka - alveg að gera sig þessi.

Halldóra Halldórsdóttir, 30.7.2007 kl. 00:16

4 Smámynd: Garún

Þetta bregst aldrei.  Ætla að gera humarsúpu næsta föstudag eftir þessari uppskrift. 

Garún, 30.7.2007 kl. 00:23

5 Smámynd: Nexa

Ég ætla sko að nota þetta ráð þegar kallinn hættir að nenna að dekra mig

Nexa, 31.7.2007 kl. 15:21

6 Smámynd: Elín Arnar

Rosalega ertu snögg í sturtu  En þetta er snilld, ég er alltaf að leit að einhverju þægilegu gómsætu teikaway og þetta er einmitt í leiðinni.

Elín Arnar, 31.7.2007 kl. 16:54

7 identicon

Þú ert algjör snillingur elsku systa....

á pottþétt eftir að nýta mér þetta.......... see ya

Þórey Dagmar Möller (IP-tala skráð) 1.8.2007 kl. 10:40

8 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

Snilld. Ég vinn við hliðina á P&P. Mun notfæra mér þetta

Jóna Á. Gísladóttir, 4.8.2007 kl. 15:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband