Flutningar

Í skugga þess að ég er nýhætt að reykja ætla ég að nota tækifærið á meðan allir halda að ég sé í geðhvörfum og segja frá þeim hlutum sem ég þoli ekki.  Mér verður fyrirgefið undir því yfirskini að ég var að hætta að reykja og er ekki í jafnvægi. hehehe.   

Nr. 1.   ÉG ÞOLI EKKI AÐ HJÁLPA ÖÐRUM AÐ FLYTJA.

Þeir sem þekkja mig vita að ég er ekki löt þegar kemur að því að aðstoða fólk með hin ýmsu verkefni, er til dæmis liðlegur málari og legg flísar og parket eins og engill.  En þegar það er hringt í mig og ég beðin um að koma og hjálpa við að flytja þá bara dett ég í þunglyndi.  Öll flytjunarsímtölin byrja yfirleitt á þessari setningu "sko getur þú ekki komið og borið nokkra kassa, þetta verður geðveikt stuð, ég panta pizzu og kaupi bjór", það er kannski bara ég en mér finnst þó betra ef fyrsta setningin er þó allaveganna í sama sólkerfi og sannleikurinn.  Svona ætti fyrsta setningin að vera "hæ ég veit þú nennir ekki að hjálpa mér en geturðu komið, þetta er svo djöfull leiðinlegt að því fleiri sem koma því færri ferðir þarf að fara með þetta drasl sem ég hef aldrei tímt að henda".  þá myndi ég kannski drattast afstað.  Fólk er ótrúlegt þegar það kemur að því að flytja, það til dæmis pakkar bara í kassa fyrstu tvo dagana síðan nennir það ekki að pakka í kassa lengur og maður er að flytja fullar skúffur af alls konar drasli.  Svarta ruslapoka fulla af bókum og kommóður þar sem allt í gluggakistunni var sett í.  Síðan á fjórðu hæð, eftir að maður er komin með sinaverk í alla puttana og blæðandi blöðrur í lófana brotnar þunna pappaborðið sem fúnkerar alla jafna sem botn í skúffunni og þrjúhundruð pennar sem skrifa ekki lengur hrynja niður stigana í fullkomnum jafnvægi við og samhliða fimmhundruð ónýtum batteríunum sem rekast skemmtilega í fjórtán tóm eldspýtubox  sem hringsnúast í kringum nafnspjöld af hinum og þessum tryggingasölumönnunum og lífeyrissjóðsráðgjöfum og öðru fólki sem þú myndir frekar drepa þig heldur en að hringja í.   Síðan til að þessir ofangreindu hlutir urðu ekki einmanna var allt annað drasl sett með og flutt bæjarfélaga á milli og iðulega er það ég sem látin er bera þetta drasl upp.  Mér finnst mjög skrítið að það er nú liðið á árið 2007 og við erum enn að "bera" hluti hingað og þangað.  Manni finnst nú að tæknin hafi átt að hafa komið með einhverja aðra lausn heldur en brúna pappakassa.  Ég meina það, þeir geta sent heilan gervihnött á á braut um jörðu en það er engin leið að fá sófasett úr vörubíl uppá þriðju hæð.   Mér finnst að fólk eigi að flytja í kyrrþey, svona eins og jarðarfarir.  Síðan eru bara lesnar flutningstilkynningar á rúv einu sinni í viku og þá geta allir uppfært heimilislistana sína að vild.    "gott kvöld nú verða lesnar flutningstilkynningar.  Guðrún Daníelsdóttir dóttir Jónu og Daníels flutti í vikunni af Njálsgötu í Reykjavík yfir í Jörfalind í Kópavogi.  Flutningarnir gengu vel fyrir sig og engin slasaðist alvarlega né varð eignartjón að nokkru ráði.  Flutningurinn var í kyrrþey að ósk aðstandenda.".  Er þetta svo geggjað, er líka ekki bara miklu skemmtilegra að fá alla í heimsókn þegar þú ert búin að koma þér fyrir og það er svo miklu skemmtilegra fyrir alla hina líka.  Tilfærsla annarra er bara leiðinlegt athæfi og á að gerast fyrir luktum dyrum. 

Mér reiknast til að ég hafi cirka eina viku í viðbót til að pirrast og sýna geðvonskutilþrif áður en að hætta reykja stimpillinn dvínar og ég verð bara aftur dónaleg og geðvond bara ég.  Svo á morgun ætla ég að segja hvað ég þoli ekki við matargerð!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Miðað við innihaldslýsingar í pjönkum og pokum segi ég:  Hvenær fluttir þú fyrir mig??????? Og hvernig vogar þú þér að upplýsa mín innihaldsleyndarmál stelpa!!

Þú ert frábær.

Jenný Anna Baldursdóttir, 17.8.2007 kl. 22:18

2 Smámynd: krossgata

Guðdómlegur pistill.  Hrikaleg góð hugmynd með flutninga í kyrrþey og flutningstilkynningar fluttar í fjölmiðlum.  Kyrrþeyr er annars orð sem þér virðist hugleikið núna, þ.e. kom fyrir bæði í þessum pistli og síðasta.  Þetta er orð sem hefði átt heima í orðasamkeppninni sem var hér um daginn.  Mér hefur heyrst (sést) að þegar fólk er svona hættulegt umhverfi sínu þá sé bloggið sérlega umhverfisvænt og hafi geðjafnandi áhrif.

krossgata, 17.8.2007 kl. 22:38

3 Smámynd: Garún

Kyrrþey er mjög ofarlega í huga mér núna, þar sem mér finnst ansi margt eiga að vera í kyrrþey.   Ég á nokkur uppáhald orð.   nr. 1. kyrrþey.   nr.2. gimbill  nr. 3. Hvönn  nr.4. tæringar.......Orð sem ég þoli ekki eru eftirfarandi;  nr.1. Nei  nr.2.  ekki hægt  nr.3. veit ekki.......

Garún, 17.8.2007 kl. 22:47

4 identicon

hádí pádí,

Hafði smá áhyggjur fyrr í kvöld þegar þú skirfaðir um að þú væri hætt að .... ,,hóst hóst". Ég hafði í sjálfu sér ekki áhyggjur af þér heldur því að nú myndir þú ekki skemmta mér neitt næstu dagana en með þessum flutningspistli þínum eru áhyggjur mínar á bak og burt. Er svo gott að hlæja svona. En ég er til í að gera það sem þarf til að tillaga þín nái fram að ganga - Flutningar í kyrrþey.

Segi bara Gó Garún við pistlum kvöldsins hjá þér

Día

díana (IP-tala skráð) 17.8.2007 kl. 23:52

5 Smámynd: Bros

Þú ert og verður frábær krútthildur Gullinbrá.  Ég vona nú samt að ef sá dagur rennur upp, sem ég á ekki von í náinni framtíð að ég megi nú hóa í þig, aldrei að vita nema að þú fengir eitthvað annað heldur en pizzu hjá mér, kannski tartalettur?  Hehehe....nei nei bara grín, haltu áfram á þessu striki, Brosinu finnst gott að halla sér á koddann eftir svona skemmtilestur.  Knús í þitt hús.

p.s. Sigga er í útileigu svo þú mátt alveg nota mig í Pollíönnuleik, er komin í nokkuð góða þjálfun.

Bros, 18.8.2007 kl. 00:19

6 Smámynd: Halldóra Halldórsdóttir

Tek algjörlega undir þetta með flutninga - var næstum búin að missa stjórnmálasamband við bróðir minn þegar ég flutti í þriðja sinn á fimm árum - hann hótaði að slíta því. Er enginn grundvöllur fyrir því að stofna svona fyrirtæki sem koma heim til manns, pakka öllu niður, þrífa, flytja dótið og taka upp og raða á nýja staðnum? Veit að það er til í útlöndum en spurning hvort íslendingar eru nógu margir og ríkir til að svona bisness gæti borið sig.

Halldóra Halldórsdóttir, 18.8.2007 kl. 01:05

7 Smámynd: Garún

Einmitt Dóra.  Það er meira að segja spurning hvort það ætti að setja í landslög að það er bannað að flytja með sér meira en 150 kg og hafa svona búferlavarnalínur á öllum brúum í staðinn fyrir búfénaðsvarnarlínur.  Fólk hefur gott af því að byrja uppá nýtt en ekki vera að flytja ryk og vonbrigði með sér....clean slate, það er það sem ég segi. 

Garún, 18.8.2007 kl. 10:40

8 Smámynd: Halldór Sigurðsson

Sakir geðvonsku yðar , og skapferlis,og sérstaklega vegna að þér séuð nýhætt að reykja,þá munu allir mínir og vonandi þínir flutningar ,fara fram í kyrrþey

Halldór Sigurðsson, 19.8.2007 kl. 14:00

9 Smámynd: Dagmar

hjúkkitt... ! að ég sá þetta áður en ég bað þig að hjálpa mér að flytja ... stroka þig þá útaf listanum !

 kv. D

Dagmar, 20.8.2007 kl. 13:50

10 Smámynd: Jóna Á. Gísladóttir

verð að vera sammála þér. Verð líka að viðurkenna að í þessu máli hef ég mun oftar verið þyggjandi en gefandi.

Jóna Á. Gísladóttir, 20.8.2007 kl. 15:31

11 identicon

Ertu hætt að reykja?????? HETJA!!!!!!!!!!!!!! Af hverju hættirðu ekki að flytja líka?? Það er dáldið smart .. þegar ég hringi í þig næst og segi: " Elsku Garún mín - ertu til í að kíkja til mín .. BARA ef þú hefur tíma.. ég er nefnilega að flytja allt dótið... " - þá ´grípur þú fram í og segir: Því miður Edda mín, ég er hætt að flytja! Ég hef verið að reyna að hætta í mörg ár, fór svo á námskeið og er algjörlega hætt - hef ekki flutt í eina þrjá mánuði!!"

Edda (IP-tala skráð) 22.8.2007 kl. 01:23

12 identicon

hæ elsku vinkona!!!

mikið var gaman að sjá þig í gær sæta, alltaf jafn ótrúlega helköttuð og massa sæt. Bloggið þitt er snilld og þar sem ég er í barneignarfríi sé ég fram á góðar stundir við tölvuna að lesa bloggið snilldarskrifin þín!

ps. bið þig aldrei að flytja fyrir mig...kalla bara í þig þegar þarf að taka til heima!

 Þú rokkar

unnsan- the Mother

unnsan (IP-tala skráð) 22.8.2007 kl. 12:27

13 Smámynd: Ingveldur Theodórsdóttir

úff.. .mínir flutningar á mánudaginn fóru fram í kyrrþey .. hefði nú heldur viljað samt smá hjálp, bar allt mitt hafurtask ALEIN upp á 3.hæð og það tók nú á ... en einn ljós punktur við þetta .. Ég þurfti ekki að hafa samviskubit þann daginn út af því að fara ekki í ræktina ! orðin alveg helmössuð eftir flutningana og verð bara að fara að passa mig á því að detta ekki niður úr hor ...... yeah right .. það verður svon in million years að ég þurfi að hafa áhyggjur af því  en ég hef af nógu af taka þannig að ég tek að mér að hjálpa fólki sem er að detta í sundur af hor með þvi að gefa þeim smá af mínum forða ;)

Ingveldur Theodórsdóttir, 22.8.2007 kl. 15:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband