Full þakklætis

Ég er svo ánægð í dag, full þakklætis og get eiginlega ekki hugsað mér lífið án sumra samferðarmanna minna.  Þannig er að reglulega þegar ég og Guðbjörg keyrum útá land eru alltaf einhverjir tilbúnir að aðstoða okkur.  Sérstaklega í umferðinni.  Ég og Guðbjörg erum svo glaðar, í gær keyrðum við úr Grímsnesinu til Reykjavíkur og bara þessa stuttu leið voru tveir aðrir bílstjórar tilbúnir á mjög svo óeigingjarnan hátt að kenna okkur lexíu.   Það þyrmir stundum yfir mig hvað aðrir eru tilbúnir að gefa af sér til mín og Guðbjargar í umferðinni.  Fyrsti bílstjórinn/kennarinn fann okkur við Þrastarlund.  Það hefur eitthvað verið að aksturslagi okkar því hann renndi sér fórnfús alveg upp að skottinu á bílnum okkar og keyrði þannig í rassgatinu á okkur í heilar fimm mínútur.  Guðbjörg varð fyrst svolitið stressuð þangað til ég benti henni á að hann vildi bara vel.  Hún leit á hraðamælinn sem sýndi 88 km hraða og virtist ekkert skilja hvað hann var að reyna að sýna henni.  Ég leit við og brosti til mannsins, ég sá hann vel, hann var jú næstum með jeppann sinn í aftursætinu hjá okkur.  Ég blikkaði hann og benti Guðbjörgu á að hún ætti nú að keyra á 90 en ekki 88 km.  Guðbjörg jók hraðann í smá stund, en sem betur fer fór hann ekki alveg strax frá okkur, heldur hélt okkur á hraða.  Þá spurði Guðbjörg "hva, á ég að fara hraðar? ég er á 100 núna, þetta er orðið óþægilegt"  Ég brosti til Guðbjargar og hristi hausinn yfir því hvað hún var vitlaus.  "auðvitað áttu að fara hraðar, hafði ekki áhyggjur hann fer ekki neitt þótt þú farir í 120 , þetta er alvöru maður".  Sagði ég og lagaði spegilinn svo ég gæti brosað líka til konunnar í farþegasæti jeppans.   Þegar við komum að beygjunni inná þjóðveginn, vildi Guðbjörg fara að hægja á sér en þorði því ekki því hann var of nálægt.  "hvað á ég að gera, ég næ ekki beygjunni á þessum hraða" hrópaði Guðbjörg áhyggjufull.  Ég reyndar verð að viðurkenna að ég er ekki nógu vel að mér í þessum lexíum til að vita hvað maðurinn var að reyna að segja okkur.   Nema Guðbjörg prófar sig áfram fer aðeins útí kant og hægir, alveg niðrí 90 og fer útí mölina til að stoppa.  Rétt áður en miskunsami bílstjórinn keyrir yfir okkur sveigir hann framhjá okkur, flautar og setur hnefann í loftið.  Þetta fannst mér fallegt.  Ekki bara var hann búin að kenna okkur mikilvæga lexíu, heldur flautaði hann svona rétt til að segja okkur að við myndum hafa það, síðan hnefinn í loftið sem að sjálfsögðu er alþjóðlegt vinamerki, merkir kraftur og áfram með þig, ef mér skjátlast ekki.   Það tók Guðbjörgu smá tíma að þora að keyra áfram ein, en minningin um manninn dreif hana áfram.  Þegar við síðan komum að litlu kaffistofunni, kom annar.  Hugsið ykkur heppnina, tveir á sama degi.  Fólk er yndislegt.  Ekki bara kom hann nær okkur en hinn, heldur var þessi örugglega miklu betri kennari, því hann var líka í símanum, hugsanlega að sinna fjarkennslu í ökuníð.   Svona keyrði hann á eftir okkur að rauðhólum en fór síðan frammúr okkur og fannst við greinilega vera orðnar útskrifaðar því honum fannst við ekkert þurfa að fá hjá honum stefnuljós.  Enda fannst okkur við þekkja hann eftir þessa meðreið.  Ósérhlífinn sem hann var, þá sáum við að hann keyrði strax alveg upp að næsta bíl fyrir framan og hóf að kenna honum líka lexíu.   Þetta var yndisleg heimkeyrsla og bíltúr.  Við Guðbjörg viljum koma áfram þakklæti okkar til þessara ökumanna, og ef þú ert að lesa þetta og hefur kennt litlum konum á litlum svörtum Polo lexíu um helgina, endilega hafðu samband með upplýsingar um heimilisfang þitt og nafn, svo ég og Guðbjörg getum sent þér glaðning um allar hátíðir.  Takk aftur, við lærðum mikið af þessu óeigingjarna starfi ykkar.   

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Það er svo mikið til af dásamlegu fólki og hjálpsömu úti á þjóðvegunum.  Þú heppin að rekast á tvo málaliða.

Jenný Anna Baldursdóttir, 22.7.2007 kl. 16:27

2 Smámynd: Halldór Sigurðsson

Gott að vita að Íslendingar eru bestir á þjóðvegum landsins .

Halldór Sigurðsson, 22.7.2007 kl. 18:17

3 Smámynd: Bros

Þetta er týpískt fyrir okkur Möllerana af Sólheimskukyni að rekast á svona líka mikil greiðagöt sem að gefa sér tíma til að hjálpa til og kenna, þetta er ómetanleg reynsla fyrir þig Gullin og þú hlýtur að setja þetta í c-víið þitt, þjóðvegakennsla 101 - en Brosið minnir á að:  skiltin sem eru svona víðs vegar með fram vegum, kringlótt  gul með rauðum jaðri og einhverri skemmtilegri tölu í miðjunni, þetta eru ekki lottótölur kvöldsins né listaverk.    Svo er náttúrulega bara að brosa, og vinka þegar maður lendir við hlið þessara kennara á fyrstu ljósum þegar til Reykjavíkur er komið.  Og vitaskuld aldrei að setjast undir stýri né í farþegasæti nema með bros á vör.

Bros, 22.7.2007 kl. 21:04

4 Smámynd: Nexa

Skemmtilegir þessir

Ætli þeir hefi verið með börn í bílnum hjá sér líka? Þá gætu þeir slegið tvær flugur í einu höggi og kennt börnunum sínum góðan munnsöfnuð á sama tíma og þeir væru að kenna konugreyjum ofsaakstur.
Einu skiptin sem mér tekst að kenna Stubbnum mínum góðan munnsöfnuð er í bílnum þegar fórnfúsir ofsaaksturskennarar taka mig að sér - og svo auðvitað þegar ég pirra mig á fólki sem kann ekki á stefnuljósastöngina.

Nexa, 23.7.2007 kl. 17:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband