Færsluflokkur: Bloggar

Að láta plata sig maður....uss

NÚ ER ÉG PIRRUÐ....... Árið 1831 kom á markaðinn fyrsta þvottavélin, hún var einföld, fylgdi ákveðinni hugmyndafræði þar sem vatni var snúið í hringi með fötum og þannig urðu fötin hrein.  Einfalt.  En í dag þó útlitsbreyttar þá hafa þær aldrei vikið frá þessari grundvallareglu:  Þær snúa dóti inní sér!  Nema hvað ég ætlaði ekki að tala um þvottavélar ég ætla að segja ykkur eina reynslusögu lítils dvergs (ég) í Kópavoginum sem einn og hugrakkur berst við stýrikerfi Satans sem reglulega og bara að gamni sínu breytir grundvallarreglum sínum og hugmyndafræði.   Sko það byrjaði á því að fyrst kom windows 95 og gott og vel maður notaði það, síðan kom windows 98 og maður var svona soldið hissa, því það var ekki alveg komið árið 1998 en hvað um það.  Þegar maður vandist því, þá kom windows millenium og maður bara varð að fá sér það því að það var nú að koma millenium og svoleiðis, en nei nei næstum því í janúar árið 2000 þá kom windows 2000.  Nú er maður alveg orðin ruglaður, en bara svona til að fucka aðeins meira uppí manni þá kom út windows Xp og núna er það víst windows Vista......en pælið í því, þvottavélin sem ég sagði ykkur frá áðan, er ennþá bara þvottavél.....og snýr dóti inní sér!!!!

Og erum við í alvörunni ekki orðin smá klikkuð, hér er ég með tæki sem heitir fartölva fyrir framan mig..segjum sem svo að ég er að vinna á hana og skrepp aðeins frá til að pissa en þegar ég kem aftur þá er hún farin að hvíla sig, það er komin skjáhvíla....Tölvan er alltaf að hvíla sig, beintengd rafmagni úr búrfellsvirkjun gabbar hún mig og hvílir sig.  Ég gef tölvunni minni meiri tíma til að hvíla sig heldur en ég gef sjálfum mér.  Væri það ekki skrítið ef að reglulega þið mynduð sjá mig þar sem ég stæði útá götu með skjáhvíluna “manchester united” á andlitinu á mér og þið þyrftuð að klípa í geirvörtuna á mér til að ég vaknaði aftur.   Síðan annað, þegar þið ýtið á PRINT og gangið að prentaranum og eigið von á blöðunum, þá kemur á þennan litla heimskulega glugga “warming up”, eruð þið ekki að kidda mig.....og á sumum prenturum kemur “saving energy. Wait”.  Ég er bara þannig að mig langar að öskra á prentarann og segja “ég er æðri þér og ég segi prentaðu núna anskoti “.  Ég veit það að í minni vinnu í hvert sinn sem einhver kæmi til mín og segði “hey garún geturðu gert plan fyrir morgundaginn?” að þá ef að í hvert sinn myndi ég sofna og segja hálfsofandi “bíddu ég er að hita upp,” eða “okey, en ég þarf fyrst að safna orku, bíddu aðeins”  þá yrði ég rekin á staðnum.  Þá gæti ég legið heima og farið í skjáhvílukeppni við fartölvuna mína og beðið með óþreyju þangað til næsta Windows kemur út. ...er að vona að þeir skíra næstu uppfærslu sínu rétta nafni eða Windows Wirkar Ekki. Svo meiga þeir setja hvaða ártal fyrir aftan sem virkar best sem sölutrix, en annars skiptir það engu máli, ég kaupi það örugglega enda sucker og orðin hjálparlaus í tölvuvæddum heimi  ........
 


Til hamingju með afmælið Guðbjörg mín.

Einu sinni fyrir þrjátíu árum síðan var ung kona stödd undir stiganum í Menntaskólanum við Hamrahlíð.  Hún var nýbúin að fá fréttir sem myndu breyta lífi hennar.  Hún var ólétt.  Einhverjum mánuðum seinna kom í heiminn lítil friðarsúla að nafni Guðbjörg.  Hún var reyndar kölluð Bugga berrassaða því hún vildi ekki vera í fötum.  Sem er ákaflega furðulegt þar sem nú í dag er Bugga berrassaða fatahönnuður.  Kannski vildi hún bíða og hanna fötin sín sjálf?  Og það hefur hún gert.  Fyrst þegar ég kynntist Frú berrössuðu þá tók hún þrjú úrsérgengin lök sem ég átti, klippti þau í ræmur, hannaði og saumaði og gekk um í marga daga í ljótustu hvít/bleiku lakbuxum sem ég hef séð á ævi minni, en það var náttúrulega áður en hún fór í skóla að læra að gera lakbuxur.  Það er margt skrítið við hana Guðbjörgu til dæmis er hún með kennitölu sem myndi hæfa hvaða greindarskertu manneskju 1010772929, meira að segja afgreiðslustúlkan á videóleigunni man kennitöluna.    En afhverju kalla ég hana friðarsúlu, það er nú tilkomið vegna þess að síðan ég kynntist henni hef ég fundið mikinn frið í sálu minni, ég hef róast um 78 desibil, 8 á richter og miklu færri stormviðvaranir hafa verið gefnar út síðan við giftumst.  Nú erum að kaupa okkur hús, þar sem Guðbjörg má mála, hanna, sauma lak og koddabuxur í tugatali og vera eins berrössuð og hún vil.     Til hamingju með afmælið kæra kona og takk fyrir að vera til. 

Þín að eilífu Garún


Mágur minn hann Gunnar

Nú er ég að spá í að blogga jákvætt, alla veganna bara núna.  Mig langar til að kynna ykkur fyrir snillingi sem ég bý með.  Hann er ný orðin sjö ára, er rauðhærður og tannlaus.  Hann heitir Gunnar, kallaður litli gutti, Guzli, gonnso eða hvað sem mér dettur í hug.  Það eru tuttugu og fjögur ár á milli okkar en þegar við erum saman þá sérðu engan aldursmun á okkur, við erum óskyld en algjörir tvíburar og erum kölluð af öðru heimilisfólki litli og stóri dreki, við erum nefnilega drekar í kínverskri stjörnuspá.  Ég er elddreki og hann er járndreki.   Hann er eins og önnur börn á þessum aldri sem reglulega segja eitthvað fyndið og sniðugt,  og ég hef ákveðið að safna þessum gullmolum til að geta talað um þá í giftingu hans eða útskrift eða fimmtugs afmæli eða eitthvað.   Í gær áttum við svona "gaurakvöld" ég og hann, þar sem við poppum, drekkum sódavatn og horfum á einhverja mynd.   Myndin sem varð fyrir valinu í gær var einn þáttur úr Stargate seríunni, og þar sem gutti er ekki alveg orðin talandi á ensku þarf ég stundum að útskýra fyrir honum.  Í einni senunni í gær, hverfur Samantha Carter með eldingu úr þessari vídd yfir í aðra.  Guzli spyr "hei hvað gerðist fyrir Sömontu?" ég var mjög spennt líka og segi snöggt "æi hún fór yfir í svona annan paralell universe".  Litli gutti verður súr á svipinn "ó mæ god, jæjja eins gott að hún fór ekki til Spánar samt!, það hefði verið agalegt".  Svona molar detta reglulega uppúr honum.   Ég elska þetta barn og þakka reglulega fyrir að ég hafi þó eitthvað gert rétt í fyrra lífi til að réttlæta veru mína með þessum sjö ára snilling sem vekur mig á morgnana með kossum og segist elska mig meira en "hús".   

Ég er svo hamingjusöm... 


Anskotans fólk 2008

Það gæti svo sem orðið að hugmynd okkar um íþróttakeppnina "Anskotans Drasl 2007" myndi draga dilk á eftir sér.   Ég er sem sagt að leyta að styrktaraðilum því mig langar mikið að gera þessa keppni að veruleika.  Því daglega og já reyndar oft á dag, verð ég vitni að því að hlutirnir sem ég er að reyna að  nota virka ekki og eru tímabundnar fermetrasugur í lífi mínu  Ég þoli ekki hluti sem taka pláss.  Það sem er að drepa mig þessa dagana er sú staðreynd að enn í okkar lífi eru snúrur af öllum gerðum ríkjandi og ráðandi.  Bara á skrifborðinu mínu eru 12 snúrur.  Snúra fyrir skjáinn í rafmagn og í tölvuna, sér snúra fyrir tölvuna, hátalara í tölvu og hátalara í straumbreyti, músarsnúran, lyklaborðssnúran, lampasnúran, internetsnúran, snúran fyrir tölvureiknin, landssímann minn og rauterinn er líka tengdur, þetta er bara litla skrifstofan mín.  Og í guðanna bænum ekki commenta að ég geti fengið þessa hluti þráðlausa því talandi um DRASL þá skulum við ekki einu sinni byrja að tala um þráðlaust.   En jæjja ég ætla að reyna að hemja mig. 

Mér datt samt í hug svona áframhald af íþróttakeppninni Anskotans drasl og hún mun þá kallast "Anskotans fólk 2008" og verður þá keppt í greinum eins og "kostningasímtalaforðun, tryggingasölumannasnjókast, viðbótalífeyrissjóðshnefaleikar og auðvitað hin sívinsæla Gallupsglíma, en highlightið verður samt sem áður Skattaslagur, þar sem venjulegt fólk fær að taka á þeim sem segja "reiknað endurgjald" í staðinn fyrir "laun" og "sjóðsvél" í staðinn fyrir "peningakassi".  Ég ætla að reyna að fá vetrargarðinn í Smáralind fyrir þessa keppni og við getur startað keppninni með því að Gilsnegger hleypur nakin út og sést ekki meir.    Endilega ef þið hafið einhverjar hugmyndir um keppnisgreinar í "anskotans fólk 2008", ekki hika við að senda mér línu.

Guð geymi ykkur 

p.s vá ég þarf að leyta mér hjálpar, hugsið ykkur hvernig gamalmenni ég verð......... 


Er með riðuveiki!

Ég er komin með riðuveiki.  Lenti í gærmorgun á Seyðisfiðri, eftir 16 tíma HELVÍTI Á JÖRÐU.  Sem sagt ferðin frá Færeyjum og hingað.  Síðan í einum rykk til Reykjavíkur.   Í stuttu máli þá er veröld mín á hvolfi í dag, og ekkert í umhverfi mínu virðist geta verið kjurrt.  Mér er óglatt og ætla því að skrifa magnaðan pistil um síðustu kvöldmáltíðarferðina mína með skipi nokkru er kallað er Norræna en ætti að heita NorðumMeðEngaRænu í kvöld, get ekki núna.   Ég set samt hér inn myndir frá hinum frægu FUSION dönsurunum sem fyrsta kvöldið slógu öll met í að framkalla hlátur frá mér.  Þau dönsuðu ekki síðasta kvöldið þar sem engin gat staðið uppréttur, meira um það í kvöld.   Niðurstaða mín eftir þetta allt saman er að "það er ekki eðlilegt að ferðast".   Og nú þarf ég að æla, bæ.................

bleikbun2michaeldansdaudlokaatridsongvararvondkonabun1


Messíasar komplex og best geymda leyndarmálið í Danmörku

Jæjja nú er ferðalaginu að verða lokið.   Manndómsferð mín er senn á enda, enda mikið búið að gerast.  Hef kynnst nýju fólki og hef eignast vini í Oslo, Skáni og í Danmörku.  Náði meira að segja að eignast íslenskan vin á Skáni.   Kaupmannahöfn var bara eins og Kaupmannahöfn, fyrir utan tvær gamlar konur sem ég "bjargaði".  Sú fyrsta stóð fyrir utan Tivolíið illa klædd í roki og kulda og bablaði á dönsku um einhverja gamla mynd sem hún hélt á í vinstri hendinni.  Ég reyndi að skilja hana en greip bara í mig og reyndi að gefa mér myndina, sem var af ungum manni uppúr 1900.  Ég rétti henni hendina og saman hönd í hönd, gengu litli íslenski dvergurinn og gamla danska konan saman yfir ráðhúspladsið og uppá Norrebro þar sem dvergurinn hafði einu sinni séð lögreglustöð.  Þar var vel tekið á móti konunni sem kallaði mig "dame" og mun ég ekki gleyma því að það þurfti gamla veika konu til að sjá mitt rétta eðli.  Hin konan var hokin og jafnvel eldri en sú fyrsta, þar sem hún stóð við Norrebrogade í rigningunni og reyndi að ná í leigubíl.  Allir keyrðu framhjá henni, þangað til íslenski dvergurinn hreinlega hljóp útá miðja götu og stöðvaði bíl sem gamla konan síðan fékk.   Það er mér ákaflega mikilvægt að það sé vel hugsað um eldra fólk, get ekki alveg sagt ástæðuna afhverju nema þá kannski að auðvitað eigum við að koma vel framm við alla.  Þess vegna finnst mér stundum erfitt að vera íslendingur og vera vitni af skammarlegri framkonu stjórnvalda við fólkið sem byggt hefur upp það þjóðlíf og samfélag sem ég er partur af.....blablablablabla........En nú er ég komin til Hanstholm sem er svona cirka einhvers staðar í rassgati í Danmörku og er að mínu mati best geymda leyndarmál Danmerkur!  Ekki afþví að það er svo flott hérna heldur einfaldlega afþví að Hanstholm ER best geymda leyndarmál Danmerkur.  Alla veganna er ekki heyglum hent að komast hingað, akkúrat engin skilti sem stendur á Hanstholm fyrr en 1 km áður en maður kemur að Hanstholm.  Maður hefði nú haldið að það mætti sleppa því líka, því ef maður kemst alla leið að 1 km markinu þá held ég maður komist á leiðarenda líka.  Ótrúlegt alveg.  Ég var alveg við það að gefast upp, þegar ég stoppaði á bensínstöð og spurði afgreiðslumanninn "where in the name of GOD is Hanstholm?".  Hann brosti og sagði að ég væri á réttri leið, bara nokkrir km áfram upp götuna.  Ég sagði honum að hætta að borga skatta, því ekki færu þeir í að setja upp skilti svona reglulega.   Þegar ég kom í Hanstholm, þá var eitt skilti sem stóð á Centrum og annað sem stóð á Havn.  Ég valdi Centrum þar sem mig vantaði Hótel, því Norræna fer ekki fyrr en á morgun.  Nei nei Centrumið var shopping centrumið og nema ef mig vantaði lífsnauðsynlega að spila keilu, þá hefði ég haft not fyrir það.  En á endanum fann ég þetta líka frábæra Hótel, sem heitir því frumlega nafni Hotel Hanstholm og er bara nokkuð gott verð ég að segja, en ég er reyndar þekkt fyrir það að elska Hótel.  Það hefðu til dæmis ekki margir gist á Hótelinu sem ég var á í Kaupmannahöfn, það heitir Turist Hotellet og er á Istegade bakvið Járnbrautalestina og í svo mikillri niðurníðslu að hálfa væri nóg.  Tyrknersk mafía á þetta hótel og leigir það út gegn staðgreiðslu í peningum.  Þeir spurðu mig þegar ég bað um herbergi "are you sure".   En ég var alveg viss og við og maðurinn í reception urðum góðir vinir og hann sagðist myndi "hunt down and kill" alla þá sem myndu brjótast inn í herbergið og stela dótinu mínu, þegar ég spurði hann hvort að það væri öruggt þarna inni.   Og vitið þið það, maður trúir manni með risa ör í andlitinu og í hermannajakka sem situr á bak við gamalt barborð og kallar það Reception.    

En á morgun hefst önnur ferð mín með Norrænu Detox skipinu og ég er með geðveikt plan um að smella mynd af Fusion dönsurunum, ég ætla að ljúga að ég sé blaðamaður fyrri skandinaviskt ferðablað og ætli að skrifa um þau grein.  Ef ég er heppin get ég kannski líka tekið mynd af hljómsveitinni og sýnt ykkur.   Sem sagt á Miðvikudaginn næsta verð ég komin í reglulegt internet samband og get sagt ykkur fleiri detaila frá ferð minni.  En samt sem áður þá verð ég að segja að Noregur er fallegasta land sem ég hef komið til, hm hm fyrir utan Ísland og Grænland........ 


Norrænt Detox

Eins og þið vitið þá lagði ég afstað í þessa ferð með Norrænu, var einmitt að lesa að henni hefði seinkað um 9 tíma vegna hvassviðris í Danmörku.  Veit að margir fá í magann við að hugsa til nokkra daga sjóferðar á miðju atlantshafinu í stormi.  Reyndar ruggar hún ekkert rosalega mikið, bara svona aðeins upp og niður.  En aumingja fólkið sem ákvað að spara sér 2000 krónur og pöntuðu sér svefnpokapláss í Norrænu.  Ok ég meina maður gerir það ekki, fyrir það fyrsta allt sem er skandinaviskt er ódýrt og svona einhvern vegin okologist, svo deluxe klefarnir eru svona bara rétt standard á farfuglaheimilum.  Svefnpokaplássið í Norrænu er neðst í skipinu, undir bíladekkinu.  Hvert herbergi er 6 fermetrar og 9 kojjur í því.  Þú ert svo nálægt öldunni að á góðum degi heyrir þú hvalasöng á meðan þú ælir úr þér lungun.   Ef þú átt síðan erfitt með að sofna vegna olíulyktarinnar getur þú hummað með vélinni sem er í herberginu við hliðina á þér og knýr áfram þetta risaskip á 19 hnúta hraða.   Þegar ég sá, dreadlokka bóhemtúristana skríða upp stigana á morgnana frá svefnpokahelvítinu þá datt mér strax í hug ný markaðsherferð fyrir Norrænu.  NORRÆNT DETOX.  Hvítir og með sprungnar æðar í andlitinu, titruðu þeir framhjá dutyfrí búðinni og lögðust á ganginn fyrir framan klósettin.  Ég veit að kojjurnar í Norrænu voru uppbókaðar svo það hafa allmargir fengið sér svona detox án þess að hafa viljað það, ég kalla það "óviljandi Norrænt hóp detox".  

Það eru þrír barir í Norrænu og þeir eru alveg frábærir, eða eins og ég kalla það frábarir.  Sérstaklega the Viking Club, ég átti eitt gott kvöld á Viking klúbbnum, þar sem ég sat og hlustaði á trúbadoratríó frá Búlgaríu, syngja vitlausa texti við næstum öll lög.   Í til dæmis laginu með Dolly Parton "island in the stream", þá kafnaði ég úr hlátri því þau sungu "we´re making love in pajamas ahaaa   í staðinn fyrir "we´re makin love with each other ahaaa".  Mér fannst þetta svo fyndið að ég bað aftur um lagið sem óskalag og þau spiluðu það tvisvar aftur fyrir mig.   Síðan tóku þau Elvis syrpu og þá bættu þau um betur og sungu  "Return her and send her, and on her own" í staðinn fyrir auðvitað, "return to sender, address unknown".   Ég sver það, ég hef aldrei skemmt mér svona vel, og það hjálpaði auðvitað að hafa tvær vinkonur mínar með mér.   Síðan um ellefu um kvöldið þá kom aðal skemmtiatriði kvöldsins,  THE AMAZING FUSION DANCE........Nú var mér allri lokið á dansgólfið komu fjórar konur og einn maður öll klædd í bleik gúmmíföt, þau dönsuðu síðan Jazz ballet og samhæfðan dans með greddu svip á andlitinu við lagið No limit, sem var vinsælt fyrir tólf árum síðan.  Það fyndnasta við þetta var að áhorfendurnir voru svona 70 stykki af Norskum eldri borgurum sem héldu fyrir eyrun á meðan unga fólkið dansaði lostafullt tvo metra frá þeim.  Ég ætlaði að taka ljósmynd af þeim en þá kom barþjóninn og sagði mér að það væri ekki leyfilegt að taka myndir af stjörnunum, ég er ekki að djóka, hann sagði "it is not allowed to take picture of the stars".  Mér fannst þetta líka fyndið og í staðinn tók ég mynd af honum, sagði honum að ég ætlaði aldrei að gleyma að hann hafi sagt þetta.   Þetta var æðislegt kvöld.   Ekki örvænta þótt þið hafið misst af þessu, þau hafa víst spilað og sungið þarna í 7 ár stanslaust og Fusion dansararnir eru börnin þeirra og eru líka búin að skrifa undir danssamning til tíu ára held ég.  

Það sem er samt svolítið ruglingslegt við Norrænu er tíminn, um borð er skipstími sem fylgir Færeyskum tíma.  Svo þegar við t.d lögðum afstað frá Seyðisfirði þá var klukkan 18:oo en um leið og við hreyfðum okkur þá var klukkan 19:00.  Allt var í lagi þegar við komum til Færeyja en þegar við fórum þaðan og lentum í Lervík, þá lentum við í Lervík klukkan 5 um morguninn en samt klukkan 6 um morguninn.  Í Bergen lentum við klukkan 19:00 en samt var klukkan bara 18:00 en svo varð þetta flókið því Norræna var sein svo ég var komin með klukkuriðu ásamt sjóriðu og bara farin að segja fólki að fara til helvítis ef það spurði mig hvað klukkan væri.  

 En lífið er frábært,  Já ég er enn hætt að reykja en hef í staðinn byrjað að rækta bólur í andlitinu á mér og er að rannsaka frunsumyndun  á neðri vör.  Svo þetta hreysti og gott útlit sem ég átti að fá þegar ég hætti er ekki alveg málið í dag.  En ég er glöð....Blesss Nú er ég að fara að leggja afstað til Svíþjóðar, eða SKÁNE og ætla að vera þar í tvo daga.  

 


Svarið við lífsgátunni er í Noregi!

Alltaf reglulega heyrum við af pílagrímsför hinna og þessara.  Frægt er að feðgar frá Íslandi lögðu upp í hnattreisu og skelltu sér að finna manndóm sonarins í framandi löndum í Asíu.  Fólk pakkar nauðsynjavörum í bakpoka, fær sér sprautur við sjúkdómum og í meðferð fyrir utan föt er ein plastkrús og plastdiskur. Sumir klífa fjöll, fara í safaríferðir eða týnast í mannhafinu´á Indlandi, allt bara til að finna sjálfan sig eða öggulítinn tilgang með lífinu.   Ég aftur á móti tek wolksvagen Polo og fer til Noregs.   Ég er alein í pílagrímsför til Noregs og ætla mér að finna sjálfan mig þar, enda hef ég enga trú að ég muni finna sjálfa mig í musteri á eyjunni gvakalúkúmbúra, nei ég veðja á Fagernes rétt fyrir norðan Oslo.   

Nú er ég í Osló á frábærasta hóteli jarðríkis að mínu mati.  Loksins komin í internetsamband og mér líður frábærlega í S.E.T.I. leit minni.   Núna skil ég afhverju Guð gaf okkur bara tvær lappir og frekar hægan gang!  Það er ekki eðlilegt að ferðast mikið, alla veganna ekki líkamlega.  Í allan morgun og í dag er ég búin að vega salt á stólnum mínum, því umhverfið mitt er á stöðugri hreyfingu vegna keyrslu og sjóriðu.  Í morgunmatnum áðan, ruggaði ég svo mikið að maðurinn sem sat á móti mér dáleiddist og byrjaði líka að rugga, geðveikt athyglissjúkur hugsaði ég.  Keyrslu riðan er vegna 9 tíma keyrslu á Seyðisfjörð á Þriðjudaginn, þriggja daga sjóbalaferð með Norrænu, strax í 5 tíma keyrslu um norska fjallvegi gist í 6 tíma og keyrt í 3 tíma til Oslóar.  Ég vona bara að ruggingurinn fari mér vel því ég held að hann sé komin til að vera.   Maður verður að passa sig nefnilega, því á kortum sér maður að leiðin frá Bergen til Valdres er aðeins 332 km, svo náttúrulega hugsar maður, ekki málið 3 og hálfur til fjórir.  NEI NEI.  Vegirnir eru ekkert nema beygjur og á tímabili var ég komin með harðsperrur í rassinn og mittið, því vogaraflið togaði stöðugt í mig til hægri og vinstri í 5 og hálfan tíma takk fyrir.  Allar þessar beygjur gera það að verkum að maður getur ekki keyrt hraðar en 60 km, sem gerir ekkert til vegna þess að það 70 km hámarkshraði hérna.  Þegar ég kom á leiðarenda var ég orðin heiladauð og þegar ég gekk að rúminu mínu til að leggja mig tók 5 beygjur áður en ég lagðist.  

En núna ætla ég í ræktina á þessu frábæra hóteli, borða síðan á Mongólísku steikarhlaðborði í kvöld.  Blogga á morgun um Norrænu, Hún á það skilið að fá heilt blogg.  En gaman að skrifa loksins, ekki láta sitja á athugasemdunum, ég sakna ykkar allra.  Og já Dagmar,.....þetta gekk. 

*seti: Search for Extra-Terrestrial Intelligence


Ég fæddist pirruð, sorrý

Ef þið lesið athugasemdirnar á færslunum mínum hér síðustu vikurnar þá kannski takið þið eftir hversu margir hafa áhyggjur af geðheilsu minni vegna minnkandi reykinga, fólki finnst ég pirruð, hættuleg umhverfi mínu eða efast um að pilluglasið mitt innihaldi rétt róandi og deyfi magn.  Ég get samt sagt ykkur mínir tryggu trúu lesendur að svona er ég bara af guði gerð.....ég hef alltaf verið dálítið pirruð, man til dæmis eftir fyrsta skipti svaka pirruð þegar ég fæddist, fávitinn sem tók á móti mér greip svo harkalega um hælana á mér að enn í dag, get ég ekki verið með ökklaband.  Snéri mér síðan á hvolf eins og það að fæðast hafi ekki verið nógu mikið sjokk.   Síðan reglulega eftir fæðingu hef ég verið dálítið pirruð.  Var t.d rosalega pirruð fyrsta daginn minn í leikskólanum að fá ekki að sitja á bláa stólnum afþví ég var stelpa og þurfti að sitja á ælubleika ógeðinu eins og hinar stelpurnar.  Einnig var ég svaka pirruð að þurfa að smakka allan mat sem settur var á diskinn á skóladagheimilinu þó svo að lyktin hefði verið nóg til að láta mann fá anorexiu nervósa tólf sinnum.  Já mínir kæru vinir, ég hef alltaf verið svolítið Prone to pirring.  Ekki misskilja mig ég er ekki eins og kramin sítróna í framan af sturlun en ég pæli voða mikið í hlutum og kannski minn helsti galli er að ég læt alltof mikið fara í taugarnar á mér.  Besta leiðin til að missa ekki vitið vegna óréttlætis og samfélagsgalla er að horfa kaldhæðnislega á hlutina og snúa þeim svolítið uppí ýkjustærð, þar sem maður getur velt þeim fyrir sér án þess að láta sig hrynja í gólfið og grenja og klóra úr sér augun af vonleysi yfir hvað allt er heimskulegt og hálvitalegt.    

En guð blessi ykkur kæru börn, mig langar reyndar að nefna það að dagurinn í dag var einstaklega góður og frábær og það fór ekki nema fjórir hlutir í taugarnar á mér í dag.  Smávægilegir og ég bíð að segja ykkur frá þeim þangað til þeir fara aftur í taugarnar á mér...(mjög líklega á morgun),

Bæ ég elska ykkur öll  


"Andskotans drasl 2007"

Mér finnst Finnar dásamlegir, þeir eru svo kaldhæðnir og fyndnir.  Hef í gegnum vinnu mína kynnst mörgum Finnum og finnst þeir mjög fyndnir.  Um helgina las ég í morgunblaðinu að Tommi Huotari kastaði farsímanum 82,62 metra á áttunda farsímakastmótinu sem fram fór í Nyslotti í Finnlandi og sigraði þar með.  Þetta finnst mér sniðugt og  vel farið með tímann sinn.  Í staðinn fyrir að pirrast ógurlega þegar tæknin virkar ekki þá bara að slá þessu uppí kæruleysi.  En þetta er bara byrjunin, ég auglýsi hér með eftir þáttakendum í móti sem ég er að skipuleggja á Laugardalsvelli og verður haldið 1.desember næst komandi.   Leikarnir munu heita "anskotans drasl 2007".  Allir eru velkomnir að skrá sig og eru flokkarnir þrír.  Konur og menn yngri en 25 ára, konur og menn yngri en 45 ára og konur og menn eldri en 45 ára.  Keppt verður í eftirfarandi greinum.  

Farsímakast -  Þáttakendur taka fimm metra tilhlaup og kasta farsíma sínum eins langt og pirringur þeirra nær.    Undanúrslit laugardaginn 1.des vodafonekastið og úrslit sunnudaginn 2.des Símadeildin. 

Digital Ísland íshokkí - Þáttakendur keppa á litlum völlum 5 x 5 m2, einn á móti einum.  Einn myndlykill er með í leiknum en tvær fjarstýringar.  Keppendur eru með sína íshokkíkylfuna og reyna að skora hjá hvor öðrum, þegar þeir skora þurfa þeir að ná í fjarstýringuna og stilla stöð 2 plús inná myndlykilinn áður en hann er tæmdur úr markinu.   Keppt verður í riðlum og fer fjöldi þeirra eftir skráningarfjölda.  

Bílhurðarkringlukast - Mjög auðveld grein.  Keppendur taka bílhurð sem ekki hefur opnast í frosthörkunum af hjörum og snúast í hringi með hana og sleppa á réttu augnabliki svo hún svífur sem lengst.   Til þess að meiga keppa í þessari grein þurfa keppendur að hafa bílpróf og vera með allaveganna þrjár nótur uppá kaup á einskynsverðri lásaolíu.  Keppt verður báða dagana.

50 m windows hlaupið - Já hið vinsæla windows hlaup verður endurvakið í Laugardalnum.  Keppendur hlaupa með sex harða diska bundna um ökklana á sér afturá bak 50 metra.  Hver harður diskur er með windows stýrikerfi, svo sem Vista, XP, 95, 98, millenium, og windows 2000.  Sá er kemur fyrstur sigrar.  ATH: erfiðari grein en maður gerir sér grein fyrir.   

Fleiri greinar munu verða kynntar á næstu dögum og opnað er fyrir skráningu núna.  Notið commentakerfið.  Athugið þið meigið aðeins skrá ykkur í tvær greinar og er skráningagjaldið 2500 fyrir hverja grein.  Skráningagjaldið þarf að komast til skila með heimsendingarþjónustu póstsins sem er eins konar próf á hvort þið getið tekið þátt, því eins og allir vita þá virkar heimsendingaþjónusta póstsins ALDREI og er of heimskulegt fyrirbæri til að setja í íþróttagrein. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband