Færsluflokkur: Bloggar

James Bond og félagar

Ég horfði um daginn á Casino Royal og fannst myndin bara nokkuð góð, svona alltí lagi Bond.  En það er eitt atriði í myndinni sem er að gera mig brjálaða.  En til þess að skilja hvað er að gera mig brjálaða skulum við fara í smá ímyndunarleik.  Segjum sem svo að ég og þú og þrír aðrir erum að vinna hjá MI 6 í London , það er bara venjulegur mánudagur og við eigum að skipuleggja og byggja James Bond bilinn, við erum ekkert svona njósnarar við erum bara fólk í vinnunni, á allt í lagi launum og svona og tökum subwayið heim eða á pöbbinn eftir vinnu..  Ok við sitjum við fundarborð og erum að tala saman, þetta er svona brainstorm fundur.  Þú segir "ok ok það verður að vera eldflaugar að framan! svona hitasæknar" Annar segir  "alltí lagi, en það tekur pláss.  Hvað með bara þessi venjulegu staðsetningartæki og raddþekkjara?".  Ok  þinn er sammála þessu en þú bætir við að það sé nauðsynlegt að það sé hægt að stýra bílnum með svona fjarstýringu, svo Bond geti lagst niður og keyrt ef það er verið að skjóta á hann.  Allan tímann þegi ég og hlusta á ykkur, síðan rétti ég upp hendina og segi...." öö en þarna heyrðu, mér finnst að það ætti að vera hjartahnoðtæki í hanskahólfinu!".  Þögn.   Þið horfðið á mig eins og ég sé fáviti, þú sýnir mér smá þolinmæði vegna þess að það er nýbúið að færa mig úr bókhaldinu yfir í hugmyndavinnudeildina og því segir þú "Já en James Bond er leigumorðingi, þú veist með licence to kill og what not, til hvers ætti hann að vera með hjartahnoðtæki í hanska hólfinu.?"  Ég svara, nú orðin óörugg og rauð í framan.  "æi bara, ef hann skildi einhvern tímann fá hjartastopp þegar hann er að keyra bílinn og svona, ég meina maður veit aldrei"  

Það er einmitt þetta sem pirrar mig geðveikt við myndina og næstum því eyðileggur hana fyrir mér og hversu mikið sem ég hugsa um þetta þá finn ég ekki réttlætingu að hafa hjartahnoð tæki í hanskahólfinu.  En ég er náttúrulega bara treg. 


Flutningar

Í skugga þess að ég er nýhætt að reykja ætla ég að nota tækifærið á meðan allir halda að ég sé í geðhvörfum og segja frá þeim hlutum sem ég þoli ekki.  Mér verður fyrirgefið undir því yfirskini að ég var að hætta að reykja og er ekki í jafnvægi. hehehe.   

Nr. 1.   ÉG ÞOLI EKKI AÐ HJÁLPA ÖÐRUM AÐ FLYTJA.

Þeir sem þekkja mig vita að ég er ekki löt þegar kemur að því að aðstoða fólk með hin ýmsu verkefni, er til dæmis liðlegur málari og legg flísar og parket eins og engill.  En þegar það er hringt í mig og ég beðin um að koma og hjálpa við að flytja þá bara dett ég í þunglyndi.  Öll flytjunarsímtölin byrja yfirleitt á þessari setningu "sko getur þú ekki komið og borið nokkra kassa, þetta verður geðveikt stuð, ég panta pizzu og kaupi bjór", það er kannski bara ég en mér finnst þó betra ef fyrsta setningin er þó allaveganna í sama sólkerfi og sannleikurinn.  Svona ætti fyrsta setningin að vera "hæ ég veit þú nennir ekki að hjálpa mér en geturðu komið, þetta er svo djöfull leiðinlegt að því fleiri sem koma því færri ferðir þarf að fara með þetta drasl sem ég hef aldrei tímt að henda".  þá myndi ég kannski drattast afstað.  Fólk er ótrúlegt þegar það kemur að því að flytja, það til dæmis pakkar bara í kassa fyrstu tvo dagana síðan nennir það ekki að pakka í kassa lengur og maður er að flytja fullar skúffur af alls konar drasli.  Svarta ruslapoka fulla af bókum og kommóður þar sem allt í gluggakistunni var sett í.  Síðan á fjórðu hæð, eftir að maður er komin með sinaverk í alla puttana og blæðandi blöðrur í lófana brotnar þunna pappaborðið sem fúnkerar alla jafna sem botn í skúffunni og þrjúhundruð pennar sem skrifa ekki lengur hrynja niður stigana í fullkomnum jafnvægi við og samhliða fimmhundruð ónýtum batteríunum sem rekast skemmtilega í fjórtán tóm eldspýtubox  sem hringsnúast í kringum nafnspjöld af hinum og þessum tryggingasölumönnunum og lífeyrissjóðsráðgjöfum og öðru fólki sem þú myndir frekar drepa þig heldur en að hringja í.   Síðan til að þessir ofangreindu hlutir urðu ekki einmanna var allt annað drasl sett með og flutt bæjarfélaga á milli og iðulega er það ég sem látin er bera þetta drasl upp.  Mér finnst mjög skrítið að það er nú liðið á árið 2007 og við erum enn að "bera" hluti hingað og þangað.  Manni finnst nú að tæknin hafi átt að hafa komið með einhverja aðra lausn heldur en brúna pappakassa.  Ég meina það, þeir geta sent heilan gervihnött á á braut um jörðu en það er engin leið að fá sófasett úr vörubíl uppá þriðju hæð.   Mér finnst að fólk eigi að flytja í kyrrþey, svona eins og jarðarfarir.  Síðan eru bara lesnar flutningstilkynningar á rúv einu sinni í viku og þá geta allir uppfært heimilislistana sína að vild.    "gott kvöld nú verða lesnar flutningstilkynningar.  Guðrún Daníelsdóttir dóttir Jónu og Daníels flutti í vikunni af Njálsgötu í Reykjavík yfir í Jörfalind í Kópavogi.  Flutningarnir gengu vel fyrir sig og engin slasaðist alvarlega né varð eignartjón að nokkru ráði.  Flutningurinn var í kyrrþey að ósk aðstandenda.".  Er þetta svo geggjað, er líka ekki bara miklu skemmtilegra að fá alla í heimsókn þegar þú ert búin að koma þér fyrir og það er svo miklu skemmtilegra fyrir alla hina líka.  Tilfærsla annarra er bara leiðinlegt athæfi og á að gerast fyrir luktum dyrum. 

Mér reiknast til að ég hafi cirka eina viku í viðbót til að pirrast og sýna geðvonskutilþrif áður en að hætta reykja stimpillinn dvínar og ég verð bara aftur dónaleg og geðvond bara ég.  Svo á morgun ætla ég að segja hvað ég þoli ekki við matargerð!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

 


Hætt að reykja

Fyrir rúmri viku síðan sagði ég skilið við gamla vinkonu, sígarettuna.  Ég hef gengið í gegnum margt með þessari vinkonu minni við erum jú búnar að vera saman síðan ég var fjórtán ára.  Hún var með mér þegar ég missti meydóminn, byrjaði að drekka, tók bílprófið, gifti mig, og allt sem ég hef tekið mér fyrir hendur síðustu sautján ár.  Reyndar svona síðustu tvö ár hef ég fundist hún vera orðin svolítið uppáþrengjandi og stjórnsöm en það var ekki fyrr en núna sem ég þorði að horfa í augun á henni og segja henni sannleikann, "þessu sambandi er lokið".  

Fyrstu dagana eftir að ég hætti fór ég í gegnum allt litróf tilfinninga minna, ég var reið við sjálfan mig fyrir að hafa hætt, stolt af mér fyrir agann, leið af söknuði, tóm og einmanna, glöð og frjáls, brjáluð og ofbeldisfull, róleg og sátt.  Síðan rólega jafnaðist þetta og nú líður mér eins og að línan sem ég hef gengið á undan farna daga er orðin kyrr, sveiflast ekki lengur og reynir á jafnvægi mitt.  

Það er nefnilega ekkert mál að hætta að reykja ef maður umgengst ekki annað fólk punktur!  Þið vitið hvernig það er ef að þið segið einhverjum að þið séuð nú alveg í spreng, þá fáið þið til baka "ó ok, ekki hugsa um læk, eða foss eða rennandi vatn"! Fólk er nefnilega svo hjálplegt stundum að það hjálpar bara alls ekkert til.   Sama með reykingarnar, t.d í dag ég var aldrei að hugsa um að reykja, en reglulega kom fólk til mín með samúðarsvip og spurði "hvernig gengur að hætta að reykja" og ég auðvitað fór að langa í sígarettu, því ég vorkenndi mér svo mikið.  Síðan leið smá stund og aftur gleymdi ég mér og var bara að hugsa um eitthvað annað, þá kom annar, tók um axlirnar á mér og horfði djúpt í augun á mér "langar þér svakalega í sígarettu?"  spurði hann og horfði rannsakandi á mig.  Svona gekk allur dagurinn og dagurinn í gær fyrir sig.   Ég er gangandi tímasprengja samkvæmt öllum í kringum mig, og það er komið framm við mig eins og ég sé fárveikur skaphundur sem má ekki trufla.  Heimilisfólkið hvíslast á göngunum og læðist framhjá hurðinni minni og passar að ekkert raski ró minni, meðan ég losna við sígarettuvinkonu mína.  Mér finnst þetta óþægilegt, allan daginn er ég stöðugt minnt á vinkonu mína og það gerir mér erfiðara fyrir að gleyma henni.  Mitt ráð til þeirra sem ætla að hætta að reykja er að hætta í kyrrþey og láta engan vita ALDREI.  

Næsta blogg verður ekki svona leiðinlegt,  þið verðið bara að afsaka mig ég á nefnilega svo helvíti bágt.   


Móðursjúk og Prone to Pain

Ég er óheppin í samskiptum við lækna það er alveg á hreinu.  Fyrir tveim árum ákvað ég að fara til læknis vegna stöðugra verkja í ökklunum.  Á morgnanna þegar ég vaknaði voru ökklarnir svo stirðir að ég labbaði helst til ófreskjulega inná bað, og það var ákaflega gaman að fylgjast með mér klæða mig í sokka.  Svona var þetta líka á kvöldin nema þá var hjartsláttur og stingir sem lífguðu upp á kvöldvökurnar.   En jæjja ég ákvað að yfirvinna fóbíu mína gagnvart læknum og pantaði tíma hjá bæklunarsérfræðingi.  Mig grunaði að þetta gæti verið vegna þess að sem barn missteig ég mig mjög reglulega og síðan sem unglingur spilaði ég fótbolta.  Hélt að kannski mætti kíkja aðeins á liðböndin á mér.   Jæjja fyrir það fyrsta þá fékk ég tíma eftir 6 vikur.  Ég fór niðrá Borgarspítalann of fékk afhendar allar röntgenmyndir af löppunum á mér frá upphafi og hafði samband við mömmu sem á fullt af venjulegum myndum af mér sem barn í teygjusokkum.   þegar ég komst síðan að hjá lækninum var ég í góðu andlegu jafnvægi og svolítið spennt yfir að bráðum myndi ég kannski fá bót meina minna.   Þegar ég kom inn til læknisins, tek ég þétt í höndina á honum sest og segi að hann verði að vera góður við mig, ég hef það nefnilega alltaf á tilfinningunni að læknar trúi mér ekki.  Þetta segi ég góðlátlega og brosandi.  Hann brosir líka og biður mig að segja sér hvað ami að.  Ég segi honum það og að þetta hafi verið viðvarandi verkir lengi.  Ég beinlínis sá á andliti læknisins á meðan á frásögninni stóð hvernig áhuginn dvínaði og hvernig hann hafði laumulega vonað að ég væri meira bækluð, með kannski auka hendi eða eitthvað.  Þegar ég var búin segir hann fýlulega "úr buxunum og stattu upp við vegg".  Mér fannst þetta svolítið skrítið, var búin að segja honum að þetta væru ökklarnir sko en ekki mjaðmirnar,  en var samt svo til í að fá þetta lagað að ég hlýddi.  Á nærbuxunum stóð ég og snéri útí horn meðan hann sat við skrifborðið og leit á mig.  5 sekúndur "hva, það er ekkert að þér".  Sagði hann og byrjaði að skrifa ólæsilega skrift á skrifblokkina sína.  Ég var svo hissa af þessari snjöllu greiningu að ég klæddi mig ekki einu sinni heldur lét mig detta í stólinn á blómanærbuxunum mínum.  "ha, hvað meinarðu ætlar þú ekki að skoða mig?" segi ég vitandi að ég er að fara að borga 4500 krónur fyrir þetta sérfræðimat.  Þá leit hann á mig andvarpaði og hallaði sér aftur í stólnum.  "sko. Guðrún mín, ég veit ekki hvernig ég á að segja þetta en sumir eru svona Pain Prone, eru alltaf með verki skilurðu?.  Ég starði og fann hvernig greindarvísitala mín lækkaði um 100 stig "ha Pain Prone" endurtók ég líflaus í andliti.  "já stundum þarf maður bara að tala við einhvern.  Hvernig eru heimilisaðstæður þínar"  sagði hann og nú var komin fallegur samúðarsvipur á manninn.  Hvað meinaði maðurinn, heimilisaðstæður? Var hann að gefa í skyn að heima hjá mér væri ég með möl sem gólfefni og væri alltaf að misstíga mig?  Aftur vegna lækkandi greindarvísitölu svaraði ég gáfulega "ha?" .  Þetta fannst honum ekki gaman, stóð upp og rétti mér buxurnar mínar.  "veistu að stundum hefur andleg líðan okkar áhrif á líkamlega heilsu okkar".   Ég fór að hugsa.  Einmitt best að panta tíma hjá sálfræðingi, ég sé alveg fyrir mér fyrsta tímann.  "sæl Guðrún ég heiti Sigurður og er sálfræðingur hvað amar að þér ?"   Ég mun brosa og segja "já sæll Sigurður, ég heiti Guðrún og er alveg að drepast í hælunum".    Hann mun væntanlega svara "ha nú, ættirðu þá ekki að fara til læknis?"   "jú það er góð hugmynd"   Mun ég segja og standa upp og fara.  En ég klæddi mig í buxurnar, tók röntgenmyndirnar sem hann hafði ekki einu sinni kíkt á og fór.  Hann klappaði mér hughreystandi á bakið við dyrnar og kallaði á næsta sjúkling.  Ég gekk beint framhjá konunni í afgreiðslunni sem ætlaði að fara að rukka mig, hún kallaði á eftir mér "halló fyrirgefðu" og ég svaraði henni "já ég fyrirgef" og hélt áfram útí bíl.   Mér leið eins og ég hefði í upphafi samtalsins við lækninn sagt "heyrðu já þú þarft ekkert að vera góður við mig, mér finnst gaman þegar læknar gera lítið úr líðan minni og mér finnst ánægjulegt að vera niðurlægð á nærbuxunum svona fyrir hádegi á miðvikudögum.

p.s Ég er enn að drepast í fótunum, en frekar lími ég sófaborðið við hausinn á mér heldur en að segja lækni frá því.   

 


Fiskisúpa a la eldhúsgeldingur

Áður en uppskriftin hefst vil ég benda á að hver og einn getur útfært "fiskisúpuna" eftir eigin höfði.  Það er auðveldlega hægt að breyta henni í steik, lax, kjúklingasalat eða hreinlega hvað sem er svo framarlega sem grundvallaratriði uppskriftarinnar eru höfð í gildi.  Ég mæli eindregið með þessari uppskrift til að koma maka ykkar á óvart eða nota hana eins og ég gerði - til að ná ykkur í maka.  

Ef þið eruð búin að bjóða í mat klukkan átta um kvöldið, skuluð þið á leiðinni heim úr vinnu koma við á veitingastaðnum "Potturinn og Pannan" í Skipholti og kaupa ykkur tvo skammta af fiskisúpu dagsins.  Hafið engar áhyggjur að þið fáið ekki nóg, þjónarnir þarna eru yndislegir og gefa manni alltaf ríflegan skammt af öllu, og líka heimabakað brauð til að taka með.  

Farið heim með súpuna, takið úr plastílátinu sem þið fenguð hana í og setjið súpuna í uppáhalds tappeware dolluna ykkar.  Beint inní ísskáp með súpuna.  Það er nefnilega alltaf sagt að bestu súpurnar séu þær sem eru upphitaðar.  Setjist svo niður, horfið á sjónvarp eða lesið góða bók.  Það er ekki fyrr en klukkan 19:30 sem þið skuluð standa upp og fara í sturtu.  Klukkan 19:45 skuluð þið setja tvo potta, sleifar, skurðhnífa og ýmis ílát í vaskinn.  Látið renna sjóðandi heitt vatn á þessa hluti (já jafnvel þótt þeir séu hreinir),  Takið síðan súpuna og setjið í pott og beint á eldavélina, hitið súpuna á vægum hita.  Takið steinselju, og byrjið að skera hana, gott svona til hálfs.  Nú ætti gesturinn alveg að fara að koma.  Skrúfið fyrir heitavatnið og setjið leirtauið í vaskagrindina og látið þorna.  ALLS EKKI ganga frá leirtauinu, þetta er allt partur af leikmyndinni.  Nú þarf að hafa hraðann á!  Takið svuntu og setjið hana á ykkur, takið smá af súpunni í matskeið og látið leka á svuntuna með óreglulegu millibili, strjúkið síðan yfir hana með höndunum.  Það er mjög mikilvægt atriði til þess að þessi uppskrift gangi upp að þegar gesturinn kemur að þá eruð þið ekki búin að skera alla steinseljuna.  Þið komið móð og másandi til dyra, rjóð eftir hitann í eldhúsinu og brosandi ykkar fallegasta sparibrosi.  Bjóðið gestinum að sitja með ykkur í eldhúsinu meðan þú "klárar".  Þegar súpan er orðin sjóðandi heit, skulið þið bera hana á borð og strá steinseljunni í munstri yfir hana.  

Meðan á borðhaldinu stendur skuluð þið láta hárfínar athugasemdir falla um matinn til að útiloka allan vafa um eldamennsku ykkar.  T.d. "æi þetta er nú soldið saltað hjá mér er það ekki" og "þetta er líka ekkert svo fitandi, ég notaði léttan rjóma".  

Eftir matinn skuluð þið baða ykkur í hrósinu og horfast í augu við það að þið eruð nútíma manneskjur í nútíma þjóðfélagi sem geta leyst úr hvaða tímavanda sem er.  .....Enda skiptir ekki máli hver gerði helv....súpuna.  

 Heildarkostnaður:  súpa 2.400 Steinselja :145  Brauð :325 Samtals:   2.870


Eldamennska fortíðar

Ég ætla að segja  ykkur smá sögu af sjálfum mér.  Ég er ekki endilega stolt af mér en ég finn mig knúna til að skrifta og játa.  Þannig er mál með vexti að ég er hörmulegur kokkur, mig vantar eldunargenið.  Munið bókina " Kona eldhús Guðsins" eftir Amy Tan?  Ég er "kona eldhús djöfulsins".  

Ég man fyrst þegar reyndi á eldunarhæfileika mína, ég var fimmtán ára gömul og hafði ráðið mig sem ráðskona í Fljótshlíðinni.  Þetta var auðvelt, bærinn var með hestaferðir og mitt verksvið var að skipta á rúmunum og undirbúa morgunmat fyrir ferðamennina.  Mjög auðvelt.  Einn daginn veikist húsfreyja mín og þarf að leggjast inná spítala í Reykjavík.  Bóndinn er í sex daga hestaferð og hún skilur mig eftir en segir mér að þegar þau koma daginn eftir um kvöldið, verð ég að hafa eldað eitthvað ofaní þau.  Ekkert mál sagði ég og blés toppinn til hægri.  Næsta dag naut ég þess að vera ein á býlinu, svaf lengi, fór í göngutúr og sólbað.  Svona um fjögur leytið ákvað ég að kíkja á hvað væri til í matvælum.  Ég komst nú ekki inní eldhúsið þar sem ég tafðist aðeins í stofunni, þar var bók á borði sem hét "Galdrar á Íslandi" þetta fannst mér spennandi og byrjaði að lesa.  Gleymdi mér alveg.  Þegar ég leit uppúr bókinni og á veggklukkuna sá ég mér til skelfingar að klukkan var hálf sjö.  Ég þaut inní eldhús og leit útum gluggann.  Í fjarska sá ég reykský og í áttina að mér reið 15 manna hópur þeysireið til mín.  Ég man ég öskraði og spólaði að frystikistunni, opnaði hana og leit oní.  Allt oní henni var hélað og gaddfreðið með snjósköflum.  Allt nema eitt.  Risastór fjólublá bjúga, lá í hring og ég greip hana.   Hún var svo frosin að ég hefði getað drepið mann með henni.  En nú þýddi ekkert að hugsa um það.  Jæjja "hvernig eldar maður bjúgu?"  hugsaði ég með mér en sá nú að ferðalangarnir voru komnir að hliðinu að heimatúninu.  "æi það skiptir ekki" hugsaði ég grenjandi, tók pönnu nógu stóra til að hringurinn kæmist í hana.  Hellti vatni yfir bjúgað og setti helluna á fullt. Hljóp niðrí kjallara í búrið að leyta að einhverju meðlæti.  Ég man að ég ætlaði að finna ananas, hvernig ég gat hugsað mér að hafa ananas með bjúgu er ráðgáta enn þann dag í dag.   Ekkert fann ég að viti í búrinu, en á leiðinni upp gerðist það.   Það var eins og einhver hefði skotið úr fallbyssu, hávaðinn var svakalegur.  Ég kastaði mér niður í stiganum og hjartað barðist ótt og títt.  Eftir smá stund gekk ég upp og inní eldhús......GUÐ MINN GÓÐUR.....Upp um alla veggi og á hverjum einasta bletti á innréttingunni, voru fjólubláar tægjur og kjöt ræmur, og á gluggunum lak fitan niður.  Ég er ekki að ýkja þetta, eldhúsið var eins og manneskja hefði sprungið þar inni.  Útum gluggann sá ég að hestamennirnir voru komnir og stigu af baki.  Drulluþreyttir og svangir.   Eina sem mér datt í hug var að fela mig, sem ég gerði.  Ég skreið undir eldhúsborðið og beið.  Bóndinn kom syngjandi glaður inní eldhúsið en fraus í dyragættinni.  Það var þögn.  Ég andaði ekki einu sinni.   Eftir smá stund, braust út úr manninum mesta hláturkviða sem ég hef heyrt.  Hann hljóp út og náði í mannskapinn og þau stóðu inní eldhúsinu og hlógu sig máttlausa.  Ég heyrði bóndann segja "yes we have this young woman with us, she is wonderful working with the animals and is very hard working, but I have to say, a kitchen is no place for her, and probably never will be.  I hope she marries a cook or else she will starve"...  Það fyndna við þetta var að ég móðgaðist smá og var eiginlega í fýlu allt kvöldið þótt allir væru stöðugt að faðma mig.  Túristarnir tóku myndir af mér í eldhúsinu og allir hjálpuðust við að taka til og elda saman.  Ég var sett í að skræla kartöflur.  Ég veit núna hvað gerðist, auðvitað átti ég að stinga göt á bjúgað, en það var eins gott að ég eldaði þetta ekki því þetta var fjögra ára gömul hestabjúga sem hafði gleymst í frystinum.  

Eru fleiri eins og ég sem kunna ekki að elda? 


Ég skil hana alveg

Þetta er besta frétt sem ég hef lesið lengi.   Ég skil hana alveg, hún er eins og ljósrituð uppúr hugsanamunstri mínu.  Þegar ég sit í sófanum með störu þá er ég að hugsa svona.  Guðbjörg spurði mig einhvern tímann hvað ég var að hugsa og ég endurtók hugsanir mínar.  Ég áttaði mig ekki á að það hefði liðið yfir hana en mér fannst spennandi að fylgjast með froðunni sem vætlaði útum munnvikin á henni.  Annars getur þessi frétt líka verið einhvers konar dulmál milli blaðamanna.  Hugsanlega er hægt að lesa út úr þessari frétt heimsyfirráð eða tilkynningu milli fjölmiðlafólks.  SKo ef þið trúið mér ekki, sjáið þá þetta.  Ég feitletra það sem ég á við:   

"Á blogginu er varla talað um annað um þessar mundir en að ég taldi mig eiga möguleika á að landa sigri á stórmóti og gerðist atvinnumaður hefur verulega kofa, eða glæsilegt tónleikahús.

Þar sem þrír kylfingar skipstjórnarmenn á fiskiskipa og öryggismálum sjómanna í þróunarlöndunum meðhöndlun hrauna, þar sem verði háttað til Vestmannaeyja, spurður um viðbrögð sín við skýrslutöku hjá lögreglu og er þar lítill tími gefist til lesenda blaða með gagnrýnandinn bað bandarísku þátttakendurnir 20 lentu hins vegar einkar auðvelt að reikna sig fram til þessa. Viðburðir en erlendir á að samkvæmt kortabók Landmælinga heitir hann? 3 Fræg þýsk leikkona verður orðið breytingar virðast hins vegar upp um eitt sæti og er í því fimmta.". 

 Ég hef verið þekkt fyrir að vera mjög vel gefin og ég les eftirfarandi samsæri útúr þessu.  "varla annað en að gerast menn í þróunarlöndum og gagnrýna hins vegar erlenda kortabók. " 

Og þar hafi þið það.  Enigma hvað?    


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótþróaþrjóskuröskun

Guðbjörg mín getur verið óþolandi, haldinn óbilandi mótþróaþrjóskuröskun, sem lýsir sér þannig að Hún er alltaf ósammála mér.  T.d. Ef ég er að borða appelsínu, og mér finnst eitthvað skrítið bragð, og segi það upphátt þá finnst henni það bara vera vitleysa og reynir að finna þrjátíu aðrar útskýringar.  Ég segi að appelsínan sé örugglega ónýt og búðin sem ég keypti hana í sé hreint út sagt troðfull af hálfvitum! Nei nei  þá er það ekki búðinni að kenna, né birgjum, né neinum öðrum, þetta sé örugglega bara af  því að ég reyki og drekk svo mikið kaffi að ég er búin að eyðileggja bragðlaukana.  Meiri að segja þegar ég sýni myglublettinn í miðri appelsínunni þá er það samt mér að kenna, ég hafi ekki geymt appelsínuna við rétt hitastig og hef örugglega smitað hana með því að ganga ekki frá henni í sér útbúna grænmetispoka í búðinni sem er viðurkennt athæfi allra sem vilja fá góðar appelsínur.  Þegar ég er búin að grýta mygluðu appelsínunni í hausinn á henni, stendur hún upp móðurlega og dæsir.  Fer á Internetið, slær upp staðlaráði Íslands og þylur upp fyrir mér, reglugerðum um geymslu matvæla, svo sem grænmetis og að það sé mikill misskilningur að geyma eigi ávexti við stofuhita, heldur er 0,6 gráðu hitastig sem er víst leiðbeinandi hitastig fyrir ísskápa kjörhiti fyrir ávexti og grænmeti.  Á þessum tímapunkti drep ég hana oft í huganum, hendi appelsínunni og fer í fýlu.  Mótþróaþrjóskuröskun er viðbjóðslegt fyrirbæri í hjónabandi.   Meira um það á morgun. 

Samgöngur á Vestfjörðum.

Eigum við ekki fyrst að laga vegi landsins áður en við kaupum allar þessar myndavélar.  Ég vil bara í svona fljótu bragði nefna, veginn til Vopnafjarðar, Djúpið, Strandirnar.  Laga þetta og taka síðan mynd af því.   Hér er dæmisaga um ferð mína til Ísafjarðar í fyrra.  

Ég lagði afstað til Ísafjarðar með Guðbjörgu strax eftir morgunmat, þriðjudaginn 16.maí svona um tíuleytið, þremur árum seinna kom ég til Ísafjarðar.  Rosalega lengi á leiðinni.  Annars var mjög fallegt á leiðinni hingað en ég naut þess nú ekkert rosalega, var við dauðans dyr alla leiðina.  Mamma hringdi í mig þegar ég var komin framhjá Borðeyri. 

Mamma:  Hæ elskan hvar ertu núna?

Ég:  Nú ég er bara að reyna að drepa mig mamma mín á Vestfjörðum, hvað ert þú að gera? 

Ég sver það mér leið eins og landsnámsmanni á Toyotu að keyra hingað.  Vegirnir eru brattir, mjóir, malarvegir og svona sýnikennslulegir hvernig ekki á að leggja bundið slitlag.  Ég er mjög bílhrædd, Guðbjörg mín hefur yfirleitt mikinn og góðan skilning á því en það komu geðveikir álagsblettir í hjónabandið, við Reykjanesafleggjarann, á Steingrímsfjarðarheiði, Í firði 1, 2, 3 og 12, þegar við mættum Landsflutningabílnum, Samskipsbílnum, Eimskipsbílnum, Póstbílnum, og litlu Nissan Micrunni sem með sinni gífurlegri breidd náði að loka veginum, á hengiflugi 19.  Þegar við mjökuðumst framhjá henni sá ég í hvítuna í augunum á ökumanninum sem með telepathy lét mig vita að það versta ætti eftir að koma.  Ég lokaði augunum um leið og Toyotan mín sleikti vegkantinn og ég hugsaði með mér hvort það væri ekki geðveikur bömmer að það síðasta sem ég myndi sjá í þessu lífi væri fjólublá Nissan Micra.

Ekki batnaði ástandið þegar við mættum upphækkuðum extra breiðum Björgunarsveitarbíl, sem ég reyndi reyndar að stoppa til að láta þá vita í hvaða blóðflokki ég væri í og sækja um kort til að gefa innyfli mín að mér látinni.  Mennirnir í þeim bíl ignoruðu mig algerlega og héldu áfram að stilla talstöðvarnar sínar á meðan þeir þröngvuðu okkur útí kant á meðan þeir keyrðu framhjá okkur.  Meðan ég talaði um hversu hræðilegt þetta væri og í rauninni  væri ferðalagi bara áfall á áfall ofan, hló Guðbjörg og talaði um að  þetta væri bara svona og  ég ætti að nota  þetta til að yfirvinna ótta minn við malarvegi  blandaða  hengiflugi.  Einmitt.   Það er mikill FEAR FACTOR  að keyra um vegi Íslands. 



mbl.is Hraðamyndavélar í gagnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta var örugglega kennarinn minn.

Ég er viss um að þetta hafi verið idolið mitt og kennari frá því í gær.  Var jeppinn ekki grár.  Sjá síðustu færslu fyrir nánari útskýringar. 
mbl.is Tekinn á tæplega 200 km hraða á Reykjanesbrautinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband