Færsluflokkur: Bloggar

Ég á aðdáanda

Ég hef eignast aðdáanda! Eða ok ég fékk mér aðdáanda. Eina litla dúllu sem hreinlega dýrkar allt sem ég geri. Allt! Í morgun þegar ég fór í sturtu sat hún á klósettinu og starði á mig og mér leið eins og ég væri GUÐ. Síðan þegar ég klæddi mig þá fyrst varð ég frábær því skemmtilegri athöfn hafði hún bara ekki tekið þátt í og beit, urraði og gelti þegar ég klæddi mig í buxurnar og sokkana. Svo mikið dýrkar hún mig að ef ég tek af henni augun í nokkrar sekúndur þá vælir hún og liggur í ástarsorg helst ofaná löppunum á mér. Fyrsta nóttin hennar var viðburðarrík þar sem hún datt tvisvar úr rúminu og vældi af söknuði. Svo lágum við saman í morgun og horfðum í augun á hvor annarri og gátum varla mælt af ást og kærleika. Já hún Rósa Anúbis er komin til að vera og ég ætla að deila lífi mínu með henni svo lengi sem Guð leyfir. "hver er sætasti hvolpur í heimi - essassú - ". Lífið er svo dásamlegt!
AðdáandiRósaRósa hissa

Lífið er öldrunarsjúkdómur

Ég gerði í dag svolítið sem ég hef aldrei gert áður ég fór í andlitshreinsun! Nú held ég að það heiti það annars er ég búin að gleyma því. Ég fór því ég er svo kvefuð að ég hélt að það myndi svona fríska upp ennisholur og svoleiðis...rrriiigght! Þegar ég kom inní kertalýst herbergi með massa panflautu tónlist sagði konan mér að fara úr peysunni og bolnum og setjast í stólinn. "bíddu hæg" sagði ég og benti á andlitið á mér..."á ég ekki bara að taka afmér gleraugun?" Ég rifjaði upp snögglega í huganum hvar andlitið á mér var og komst að sömu niðurstöðu og hvern einasta dag að andlit mitt er þar sem það hefur alltaf verið og ekki coverað með peysu né bol. "já það er betra ef þú ferð úr að ofan og ég pakka þér inní teppi. "okei okei hugsaði ég og fór úr öllu" nei nei þá fékk hún taugaáfall því ég hafði líka farið úr brjóstarhaldaranum. "nei vertu endilega í brjóstarhaldaranum". Ég var ekki búin að vera í kvennadeildinni í fimm mínútur og strax farin að gera mig að fífli djö... Síðan settist ég í stólinn og næstu 25 mínúturnar sat ég og fraus í hel af öllum köldu kremunum, menthol úðanum og saltlausnunum sem hún setti yfir andlit mitt allt til að hreinsa mig. Ég spurði hana síðan þegar hún pennslaði á mig einhverri múrblöndu hvort henni fyndist ekki húðin á mér stórkostlega mjúk og falleg því ég hefði nefnilega aldrei borið eitt né neitt á hana sko. Ég fann fyrir smá kvíðatilfinningu þegar hún svaraði ekki strax en hummaði svona af vorkunnsemi og sagði að húðin á mér væri mjög opin og bæði feit og þur. Ég ætti að bera á mig styrkjandi krem því húðin væri farin að sýna merki öldrunar!!!! ÖLDRUNAR. Aldrei hefur neinn sagt eins mikið rugl við mig áður...ÖLDRUNAR. Ég spurði hana titrandi hvort ég væri að fara að deygja! Hún vildi nú ekki svara því en hún var ekki ánægð með hvað húðin á mér væri orðin gleymin og öldruð. Ég fór útaf snyrtistofunni með fjögur krem og nú er ég stöðugt í panik yfir að húðin á mér sé að eldast óheyrilega mikið og er með grímu til að vernda hana fyrir sólarljósi, bílljósum, vasaljósum og of skærrum brosum. Shitt...ég er að verða gömul en það er á hreinu að húðin á mér fer á Dalbraut á undan mér. En ég held að það er sama hversu mikið krem ég ber á mig og hversu mikið af töflum ég tek eða hvað ég geri...eitt er alltaf víst og það er að lífið er öldrunarsjúkdómur sem engin er lækning við..

Garún og Djákninn sameinuð á ný!

Ég hef kvatt pólóinn minn!  Þann frábæra hest sem þjónað hefur mér hálf duggandi og klingjandi glaður í rúm 5 ár.  Ég og Guzli skýrðum hann á sínum tíma Tarzan og nú er Tarzan komin til Jane og nýtt hestafl er komið í líf mitt!  Þann fák skýrði ég í dag Djákna!  Svo Garún er komin á Djákna og saman keyrðum við yfir Bægisá og yfir Hörgsá án þess að Djákni né Garúnu yrðu meint af, svo sagan endurtók sig ekki hvað það varðar.  En Guð minn góður hvað það er mikil klikkun að keyra um á þessu landi stundum.  Ég fór í alvarleg geðhvörf og í kvíðaofsakast á leiðinni yfir Öxnadalsheiðina!  Þetta er ekkert djók....Sem betur fer er Djákni fjórhjóladrifinn og á nýjum dekkjum því annars held ég að ég væri ekki hérna á Hótel Akureyri að skrifa þessa bloggfærslu.  Snarbrattar brekkur, vegirnir mjóir og neðst í brekkunum skarpar beygjur til hægri eða vinstri og svo mikil hálka að maður rann niður brekkurnar stjórnlaus.   Öxnadalsheiði er 14 km löng!  Og voru þetta lengstu 14 km í mínu lífi hingað til.  En ég er komin til Akureyrar og hér verð ég með annan fótinn á virkum dögum en í öruggum Höfnum (orðaleikur) um helgar.  Góðar Stundir......p.s Er Djákni ekki sætur.
DjákniÖxnadalsógeð


Til hamingju með afmælið Gunnar Jökull

í dag á lítill dreki afmæli.  Fyrir 9 árum síðan kom þessi litli járndreki í heiminn og gladdi gamlan elddreka og stal hjarta hans.  Þessi litli dreki stal hjartanu mínu og ég hef engan áhuga á að fá það til baka enda er það vel geymt hjá þessum litla gleðigjafa og snillingi.  Það var oft mikið um að vera þegar þessir tveir drekar hittust og oft var mikið um skruðninga og læti þegar þeir hófu sig á loft og leyfðu vængjunum að blaka og drekuðust útum alla borg og allt hús, enda við hverju má búast þegar tvær töfraverur hittast og gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn.  Ég elska þennan dreng nákvæmlega eins og hann er og hugsa svo oft með þakklæti hvað það er dásamlegt að fá að vera systir hans, frænka, vinur eða hvað sem ég er.  Sem sagt!  Í dag þann 02.10 er járndrekinn Guzli 9 ára og þann 10.02 verður elddrekinn Guzla 34 ára en samt er eins og það sé engin aldursmunur á þeim.   Sjáið hvað það er skemmtilegt hvernig dagsetningarnar speglast.  Til hamingju með daginn elsku kall. 
DrekarFiredragonIron Dragon

SANDVERK

Héðan í frá verð ég alltaf alltaf nakin!  Guð minn góður hvað lífið er dásamlegt.  Hjá mér eru æðislegustu menn í heimi.  Verkamenn frá fyrirtækinu Sandverk frá Sandgerði, þeir Sæmi, Raggi og Steini humm.  Þeir mættu í morgun og bættu í grunninn mold, tóku hólinn, gengu frá símastaurunum, gerðu skeifu fyrir heitapottinn, tyrftu meðframm pallinum og skeifuna, tóku bárujárnsrusl og gengu svo vel frá eftir sig!!!   Guð minn góður!  Ég hef bara aldrei vitað eins mikla þjónustulund og þvílík vinnubrögð.  Hlutunum bara reddað, einn tveir og þrír.  Ég er SVAKALEGA ÁNÆGÐ með þeirra vinnu og ætla nú að detta í hug hinar ýmsu leiðir og nýjar hugmyndir svo ég geti ráðið þessa menn aftur og aftur í vinnu.  Allir sem lesa þetta ættuð að bjalla á þessa menn!  Ekkert er ómögulegt fyrir þeim.  Þetta eru þeir búnir að gera á innan við þremur tímum.  Vááá.

Sandverk 5Sandverk 4Sandverk 3SandverkSandverk 1Sandverk 2


Ég bíð nakin!

Allt og ekkert að gerast í Höfnum í dag.  Ég á von á pípara sem ætlar að snara ofnunum í húsinu í gang (vonandi) og síðan kemur verktaki með vörubíl, kló og skóflugrafa til að ganga frá jarðveginum hér í kringum húsið....Sem sagt allt að gerast .....eða?   Nú er klukkan orðin fjögur og ekkert bólar á hinum ýmsu verktökum eða iðnaðarmönnum sem ætluðu að koma.  Ég er orðin soldið stressuð að þeir hafi haldið að þetta væri Höfn í Hornafirði og eru núna að fá sér pulsu í Freysnesi fyrir austan saklausir og fullir tilhlökkunar um að gera þetta fyrir mig gegn greiðslu.   Hm.  Sem sagt ég ákvað að vera heima í allan dag svo að þessir yndislegu menn kæmu ekki að tómum ísköldum kofanum stútfullum af jarðvegsraski.  En kannski ef ég fer í bað og geng um nakin í smá stund þá kemur einhver enda þekkt alheimsregla að ef maður er nakin þá kemur einhver!!!!  ´Pínlegt en hugsanlega nauðsynlegt!

Þetta verður spennandi klukkutími til 17:00.  Jebb. 


Brostu við heiminum og hann mun bíbba á þig!

Já nú er komin tími til að blogga.  Bögg blögg verður þetta.  Mig langar aðeins að koma frá mér svolitlu sem ég hef verið að upplifa undanfarið.  Hef fundið fyrir massa pirringi og áreiti frá umhverfinu!  Þannig er mál með vexti að heimurinn ÝLAR. 
Svona síðustu tíu daga hef ég tekið eftir því að heimurinn ÝLAR, BÍBBAR, EÐA ARRGAR Á MIG með einhvers konar hljóðum.  Það byrjaði á því að bíllinn minn ÝLAÐI þrisvar mjög óþolandi þegar ég tók vinstri beygjur eða fór yfir hraðahindranir.  Olíuljósið í mælaborðinu var ekki viðunnandi varúð svo bílaframleiðandi Polo ákvað að setja inn taugatrekkjandi ÝL frá helvíti með því.  Ég fór síðan í rúlluhurðina í Smáralind og hún stoppaði með mig inní miðjunni svo ég upplifði mig sem fisk í fiskabúri.  Þá byrjaði hurðin að ÝLA á mig.  Takk!  Því ég hefði ekki fattað að ég hefði stoppað nema útaf Ýlinu.  Ég hlýt að hafa verið stórkostleg sjón þar sem ég stóð sem skemmtikraftur Smáralindar hlaupandi á milli glerhurðanna, hristandi hausinn haldandi fyrir eyrun til að verja mig Varúðar Ýlinu sem ég gat ekkert gert við.   Síðan fór hún hægt afstað og bíbbaði taktfastlega á meðan hún sniglaðist til að opna.  Ég hrundi inní Smáralind kófsveitt og heyrnaskert. 
Ég er orðin ein taugahrúga af Bíbbum, Ýlum og stafrænum Örgum.   Síminn minn bíbbar reglulega á mig, bíllinn minn argar á mig, hurðir, umferðarljós og búðarkassar ýla á mig. 
Og mér var allri lokið í gærkveldi þegar ég fór að sofa hér í þögninni í Höfnum og heyrði þá allt í einu úr veggnum fyrir ofan rafmagnsdósina, veikt stöðugt Ýl sem breyttist í bíbb á tíu sekúndna fresti og svo aftur í stöðugt Ýl.   Taugaveikluð og röflandi við sjálfan mig í hálfum hljóðum kveikti ég ljósið og starði á innstunguna sem starði til baka og steinþagði. "hm, þetta er hættir sem sagt þegar ég kveiki ljósið" hugsaði ég og fann hvernig gáfur mínar kickuðu inn.   Ég slökkti aftur ljósið og starði í myrkrið þar sem innstungan var.  Eftir nokkrar sekúndur byrjaði ýlið.  Ég kveikti ljósið aftur og einbeitingarsvipurinn var svo magnaður að það var eins og hugur minn væri að kljúfa atómið.  Ýlið hvarf.  "aha" hrópaði ég og slökkti aftur ljósið.  Ýlið kom og mér fannst eins og ýlið væri núna hlæjandi, eins og því fyndist geðveikt skemmtilegur þessi kveikja og slökkva leikur.  Í smá stund var ég líka glöð, þar sem ég lá á gólfinu og kveikti og slökkti til skiptis hrópandi "eureka".  Eftir korter af þessum leik uppgötvaði ég mér til skelfingar að þrátt fyrir uppgötvun myndi ýlin ekki enda.  Innstungan vildi láta stinga í sig eða var búin að mynda sér þá skoðun á rafmagnsmálum hússins að kveikt skildi á loftljósinu á meðan ég svæfi.   Hálfnakin og úrvinda reyndi ég að leysa þetta mál.  Hm, hvað ef ég sting einhverju í samband og slekk ljósið!  Ég hljóp framm og kom aftur með fartölvuna mína.  Stakk henni í samband og hún bíbbaði vinalega á mig til að láta mig vita að rafhlaðan væri farin að hlaða sig.  "verði þér að góðu" svaraði ég vinalega á móti.  Síðan slökkti ég ljósið og lagðist uppí rúm.  Mér leið eins og ég hefði sigrað þar sem ég leið Ýlar og bíbb laus undir hlýrri sænginni.  Alveg þangað til að ég fór að greina lágt suð sem magnaðist og stökkbreyttist í Ýl/bíbb Arg.  "hvað í andsk..." sagði ég og stóð upp, kveikti ljósið og starði á innstunguna!  Ýlið/bíbbið og argið þagnaði.  "æi já, ég verð að slökkva".  Ég slökkti og starði aftur á vegginn!  Vinalega pyntingaraðferðin byrjaði aftur og nú keyrði tölvan sig upp og viftan í tölvunni fór að suða hávært.  Ég kveikti ljósið.  Öll hljóð hurfu en Tölvan byrjaði að bíbba og lét mig vita aftur að batteríið væri að hlaða sig.  Nú var klukkan að verða tvö og ég lá aftur á gólfinu og uppgötvaði AFTUR kveikja og slökkva dæmið.  Innstungan elskaði mig.   Ég pakkaði tölvunni sem var núna farin að hreinsa diskadrifið með viðunnnandi suði og argi og fór með hana framm.  En jæja um fjögurleytið sofnaði ég, búin að teipa ullarteppi yfir innstunguna og raða þremur koddum úr stofunni yfir teppið til að hylja Ýlið.  Ég sofnaði en vaknaði þremur tímum síðar við Ýlið úr símanum mínum.   Er þetta eðlilegt?

Að fylla uppí eyðurnar.

Ég og Auðunn fundum tíma til að veiða loksins.  Veiddum reyndar ekki neitt en sátum á bryggjunni og spjölluðum um seinni heimstyrjöldina og Hitler!  Hann er 10 ára!  Á myndunum sést reyndar engin aldursmunur og heldur ekki þegar við vorum að spjalla, ég þóttist vita meira og það sem ég vissi ekki skáldaði ég bara og svei mér þá ef ég færði ekki bara heimstyrjöldina aftur í tímann um tíu ár gerði Hitler að grafískum hönnuði og flutti Peal Harbour á Austurströnd Bandaríkjanna.  What ever hann er bara 10 ára og mun örugglega læra þetta rétt einhvern tímann.  En annarri veiðiferð sumarsins lokið!   Eins og kannski margir vita þá er ég búin að vera að moka úr holu og ofaní holu í allt sumar.  Þetta hefur verið svona einka hobbý og massa andleg therapía en nú er andlega meinið varðandi holuna búið en það eru enn svona tvö vörubílahlöss af sandi og mold sem þarf að fylla í þessa holu fortíðar (ekki líkingarmál), svo ég sendi bara neyðar sms á alla sem ég þekki um að koma og moka smá klukkan fimm á eftir og þá verður þessari holu lokið og ég hef loksins fyllt uppí eyðurnar í lífi mínu (ekki líkingarmál).  Já alla veganna þessari en það er reyndar á teikniborðinu að moka holu í framgarðinum.  P.s ef ykkur vantar að láta eitthvað hverfa þá er síðasti séns í dag - holunni verður lokað no matter what!  Góðar stundir.

Að aftanAð framan

Gjaldeyrisgapastokkur

GapastokkurÉg verð að viðurkenna að ég lifi frekar vernduðu lífi hér í Höfnum á Reykjanesi.  Svona flesta daga þá fer það algerlega framhjá mér hvað við þjóðin eða almenningur erum að upplifa eftir Elton John fyllerí útrásamanna, ég borga reikningana mína, safna reglulega dósum til að eiga fyrir eldsneyti á bílinn, og borða eingöngu þegar ég er svöng og spara rafmagn og hita með teppum og sængum.  Svo flesta daga er ég frekar hamingjusöm og ekki með geðveikar áhyggjur endalaust.  En svo þarf maður að fara til útlanda og þá er maður slegin í andlitið af raunveruleikanum og gengi krónunnar er martröð líkust og kaffi og með því á erlendri grundu er eitthvað sem maður býður sjálfum sér ekki uppá.   Danska krónan er 24 krónur íslenskar og sú sænska er cirka 17! 
Mér fannst ég holdgervingur vandamála íslensku þjóðarinnar varðandi gjaldeyrishöft í útlöndum meðan ég var úti í Svíþjóð.  Ekki vegna þess að ég mig langaði að eiga massa viðskipti við erlenda aðila, heldur langaði mig bara í kaffi en tímdi ekki að borga 1.230 krónu fyrir það.  Ég setti sjálfan mig í gjaldeyrisgapastokkinn og ef þið rýnið vel í myndina þá sjáið þið að móta fyrir Vísakortinu í rassvasanum.   
En án gríns þá er ég komin heim eftir vel heppnaða ferð til Svíþjóðar og nú byrjar ballið aftur.  Ég hress, heil heilsu og ofvirkari sem aldrei fyrr og tilbúin í einhverja geggjun.  Enda komin úr gjaldeyrisgapastokknum og get keypt mér kaffi á 350 krónur aftur. 


Fúlar á móti!

Fúlar á mótiMér finnst fátt eins skemmtilegt eins og leikhús og þá sérstaklega gott leikhús.  Það eru til margar tegundir af góðu leikhúsi!  Góður gamanleikur er hreinlega eitt það besta sem ég veit og ekki er verra þegar gamanleikurinn er framkvæmdur af þremur snillingum í gríntímasetningum og sviðsframkomu og kunna svo sannarlega að spila á gleðina með áhorfendum.  Ég var svo heppin að vera fengin til að vera sviðsstjóri í Loftkastalanum í leiksýningunni Fúlar á móti sem þýðir einfaldlega að þrjá daga í viku fæ ég að fylgjast með áhorfendum ýla, titra og frussa útúr sér hláturrokunum við leik Eddu Björgvins, Bjarkar Jakobs og Helgu Brögu.  Engin sýning er eins og það er svo mikil leikgleði á sviðinu, hvernig þær spinna í takt við salinn, ná kontakti við fólkið í sætunum og glóa af einskærri leiklistargleði.  Ég veit þetta því ég er á staðnum, fylgist með þeim undirbúa sig, hita upp, heyri í þeim í hléi og síðan kann ég handritið og þekki því þegar þær byrja bara að leika sér og skemmta sér og öðrum.  Ég elska leiklist, ég elska leikhús, kvikmyndir og bara listina að skemmta og reyna að koma sögu til skila eða að hafa áhrif á einhvern með æfðu efni.  Fyrir mig er jafn skemmtilegt að vera baksviðs og vita fyrirframm hvað mun gerast og fylgjast með þegar margra mánaða undirbúningsvinna og þrotlausar æfingar skila sér í númeruð sætin þar sem fólk situr og opið bjart og fallegt og tilbúið að láta skemmta sér eða hlusta á sögu í smá tíma.  Það er einmitt á þannig mómentum sem maður fær gæsahúð af gleði yfir að finna þá vissu að maður er á réttri hillu í lífinu og máttur manni æðri hefur séð svo til að maður fann köllun sína og er á hárréttum stað í lífinu og á hárréttum tíma.   Úff....soldið væmin....

En endilega ef þið viljið fá smá harðsperrur í alla hláturvöðva líkamans hringið í félaga ykkar og skipuleggið góða kvöldstund í Loftkastalanum með okkur stöllum.  Við tökum vel á móti ykkur. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband