Landsfundur í Höfnum 2009

Í gær 28.mars á því herrans ári 2009 var haldin flokksfundur í Höfnum!   Mætt á fundinn voru Garún (manneskja), Ída, Kisan, Músin og Sómi (kettir).    Það var svakalega góð stemmning og var öllum fundarmönnum ljóst að nýir tímar væru í vændum og tilhlökkun fyllti stofuna og eldhúsið af framtíðarvonum og já bjartsýni.  Garún hafði prentað út tvær A4 síður úr tölvunni sinni og dreifði á kettina og sjálfan sig rétt áður en fundurinn hófst.  Kettirnir höfðu reyndar takmarkaðan áhuga á ritinu fyrst um sinn en voru áhugasamari þegar Garún hafði smurt túnfiski yfir blaðsíðurnar.  Kettirnir skiptust á að stökkva uppá ræðustólin og sleikja á sér rassgatið og allt var eins og við var að búast þangað til að Garún manneskjan tók til máls.  Hún sleikti ekki á sér rassgatið í stólnum en kettirnir voru sammála eftirá að það væri eins og fnykur frekjudollu hefði lagt yfir fundarstaðinn á meðan manneskjan talaði.  Í hléinu á miðjum fundinum þegar manneskjan fór út að reykja voru kettirnir sammála að ræðan hefði verið ómakleg og þeir hefðu í raun viljað miklu frekar að hún hefði bara eins og þeir allir sleikt á sér rassinn í stólnum.   Hér fyrir neðan er brot af ræðu manneskjunnar Garúnar eins og kettirnir skildu hana. 

 "Þó það sé að koma vor er engin ástæða að vera að fara úr hárum það getur vel verið að það sé að  hlýna en reynslan segir  mér að það mun aftur verða kalt og þá er það ekki mér að  kenna að þið séuð hárlaus og illa undirbúin.   Það er engin ástæða fyrir ykkur að finna alltaf peysurnar mínar sem ég legg á sófann og þæfa þær, það gerir mig ekki glaða  eins og þið haldið.   Það þýðir ekkert að hanga fyrir utan svefnherbergishurðina mína klukkan 6 á morgnanna og væla um mat, ég mun aldrei fara frammúr bara til að gefa ykkur mat klukkan 6!  Aldrei.  Ég gef ykkur mat þegar ég er búin að pissa á morgnanna eins og ég er búin að gera í bráðum 10 ár!  Síðan finnst mér furðulegt að Villi villiköttur sé orðin auðfúsugestur hér á þessu heimili þrátt fyrir ýmsar valdabaráttur ykkar við hann hér fyrir utan, hann er ekki geldur eins og þið og það er vond lykt af honum og ég vil ekki hafa hann inná heimili mínu!  Og já á meðan ég lifi þá ræð ég!!!!!"

Á meðan Garún hélt ræðuna hlógu samt kettirnir og fannst hún sniðug, það var bara eftir á yfir vatnssopa og FIT 32 matarboði sem virkilegu skoðanir þeirra komu í ljós.  Kettirnir ákváðu að finnast Garún manneskjan flott og dugleg en voru samt ekki sammála henni og seint í gærkveldi þegar þeir voru búnir að þrífa sig og finna peysur til að sofa á voru þeir búnir að gleyma öllu því sem sagt var  fundinum og fannst gaman að hafa mætt á landsfundinn í Höfnum og sleikja túnfiskinn af nýjum hugmyndum sem eins og hinar fyrri voru smurðar með einhverju sem þeim þótti gott.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Róslín A. Valdemarsdóttir


Þú ert svo fyndin....

Róslín A. Valdemarsdóttir, 30.3.2009 kl. 18:47

2 identicon

Ég hefði átt að halda landsfund þegar þú varst lítil, kannski væri sumt öðruvísi.

Ég hefði líklega náð meiri árangri með kettina en með þig kelli mín.

Þúsund kossar

mamma

Jóna (IP-tala skráð) 31.3.2009 kl. 22:57

3 Smámynd: Ingveldur Theodórsdóttir

Þú ert náttla bara snillingur ;)

Ingveldur Theodórsdóttir, 1.4.2009 kl. 00:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband