Fullorðinsstuff

"afhverju þarf ég endilega að vera í skóla?"  Spurði litli gutti mig í gærkveldi og þegar ég sagði honum að það væri til að mennta sig svo hann gæti unnið þegar hann yrði stór, fussaði hann og andvarpaði "ég vil ekki vinna, ég vil verða rokkari!".  Hann var harðákveðinn.  "ok en rokkarar þurfa líka að vinna svo þeir geti keypt sér græjur og borgað hótelherbergi og bensín á milli staða" svaraði ég og mér fannst ég svakalega snjöll.  "Ég þarf ekki rafmagn ég vil verða trommari og svo ætla ég að sofa í tjaldi".  hm þetta var að verða snúið.  "ok en trommur kosta pening! og tjald kostar pening og þú þarft að borða"  Ég fann að þetta samtal var að verða snúið.  "einhver gefur mér trommur og ég nota tjaldið hans Steinþórs" Hélt litli dreki áfram og stóri dreki rumdi áhyggjufullur yfir því að vera að klúðra uppeldinu.  "ok ok en þú þarft að læra á trommur" Sagði ég ánægð með að vera búin að snúa samtalinu til baka að lærdómi.  En nei litli dreki rústaði þessu með einni setningu og blés toppnum til hægri "ég kann á trommur".  Þar með var tilraun mín til Hjallastefnu rústað og ég keypti bara nammi og kakó handa drekanum sem ætlar aldrei að vinna né vera í skóla.  Vonandi að foreldrarnir geti lagað það sem ég náði að klúðra í einum litlum bíltúr frá Höfnum yfir í Njarðvík.  Úpps. 
Litli dreki og dvergahundur sofa


Hvatvísi

Ég er hvatvís!  Hef alltaf verið það, ræð ekki við það.  En lífið er svo snjallt að þrátt fyrir að maður sé með galla gefur það manni eitthvað sem vegur uppá móti stundum annan galla.  Í mínu tilfelli er það leti.  Ég er svo hvatvís að það er stundum ekki eðlilegt.  Allt sem mér dettur í hug er ég búin að gera áður en ég hugsa hvort það sé góð hugmynd eða ekki.  Stundum kickar letin inn og þá er ég eins og algebra sem núllar sjálfan sig út með tvo mínusa.   En uppá síðkastið hefur letin legið í leti og ég er með 17 verkefni í gangi vinnutengd, jólagjafatengd, skemmtilegstengd og það sem mig langar að gera í framtíðinni.  Síðan blandast óvænt atvik inná listann og ég er að kafna úr áhugamálum og skemmtileg heitum.   Viku fyrir jól var ég að keyra útí Hafnir og var næstum búin að keyra á ungan mann sem gekk í myrkrinu í átt að Höfnum.  Ég bauð honum far og sagði hann mér að hann væri frá Alaska í námi í New York og komst ekki heim um jólin.  Hann hafði ákveðið að fara til Íslands og skotlands um jólin til að klífa fjöll það sem það var ódýrara heldur en að fljúga heim.  Þegar hann lenti hér var hann orðin svo leiður á stórborgum að hann kíkti á landakort af Íslandi og fann minnsta klasan á kortinu í göngufæri frá flugvellinum.  Það voru Hafnir og ætlaði hann sér að tjalda í þrjá daga áður en hann héldi áfram til Skotlands.   Það endaði með því að Forrest eins og hann heitir gisti hjá mér þessa daga.  Og viti menn!  Hann er í leiklistarnámi og voru því þessir þrír dagar mjög skemmtilegir hjá okkur þar sem við bárum saman bækur okkur meðan við keyrðum um allt Reykjanesið, pökkuðum inn jólagjöfum, fórum í göngutúra og auðvitað fékk Forrest Skötu sem honum fannst reyndar ekkert spes.  Hvatvísi borgar sig og í þetta skipti núllaði hún út letina því ég fékk auka hendur fyrir jólin þar sem Forrest frá Alaska er snillingur í innpökkun á jólagjöfum.   Svo á þessu ári er ég búin að safna í sarpinn Holly May frá Ástralíu, Will frá Florída, Tim og Edith frá Skotlandi og Forrest frá Alaska.  
Forrest frá Alaska

Gleðileg Jól 2009

Kæra fjölskylda og vinir Gleðileg Jól.

Jólahvolpur


Timburmenn

Hann Daníel erkivinur minn og ég fórum ekki fyrir löngu niðrí fjöru fyrir utan húsið mitt í rekaviðsleiðangur.  Þegar ég fann fílinn í fjörunni A.K.A hvalinn tók ég eftir nokkrum fallegum rekaviðsdrumbum og fórum við að sækja þá.  Ég benti á drumbana og Daníel sagaði og setti á pallbílinn sem rumdi glaðlega yfir hlutverki sínu.  Enda eru pallbílar þekktir sem vinnubílar en ekki skraut utan um dverg og dvergahund.  Ég hélt á einum litlum sem mig grunar að hafi verið skaft á hamri sem ég fann og týndi svo aftur í sumar og þá var ég orðin þreytt og benti bara á augljósu drumbana fyrir framan okkur.  Daníel er góður vinur og þóttist ekki sjá neina drumba og gerði því hlutverk mitt jafnmikilvægt og hans.  Nú eru drumbarnir að þorna og ekki líður á löngu áður en þeir verða fínustu listaverk í höndum erkivinarins.
SterkurSterkariSterkastur

Heppin í hálku.

Jæja ég komst aðþví að ég er ekki meðvirk!  Ég lenti í háska í dag og líf allra fjölskyldumeðlima þaut ekki fyrir augum mér, bara mitt eigið. hehehe.  Það er sem sagt komin staðfesting á það að ég er frekar sjálfmiðuð manneskja.  Ég og Obbobobb fórum á Syðri Reyki í dag til að sækja hestana okkar og fara með í Kópavog, fyrsta ferð af þrem.  Allt gekk vel þangað til á veginum hjá Mosfelli þá rennur kerrann í hálku og Sigvaldi (obbobobb) fer að berjast við að halda bílnum á veginum.  Allt kom fyrir ekki og lentum við með bíl, kerru og hesta útaf veginum.  Enduðum í skurði og hestakerran á hliðinni.  Við stukkum út og losuðum hestana sem voru sem BETUR fer ómeiddir og tiltölulega rólegir þegar þeir komu út og byrjuðu strax að bíta gras.  En ég segi það að sjá hestakerruna á hliðinni og vita ekki hvernig ástandið á hrossunum var er hugsanlega ein sú versta tilfinning sem ég hef upplifað og þvílík gleði þegar allt var búið og engin slasaðist.   Ég rölti síðan með hvolp og tvær hryssur cirka þrjá kílómetra að Mosfelli og setti rólegar og lífsglaðar hryssur inní hestagirðingu sem þar er.  Hvolpurinn læknaðist af hræðslu við hesta því hún sat hálfa leiðina á bakinu á Krissu og naut sín í botn.  Hann Grímur á Syðri Reykjum kom svo og kippti okkur upp, henti kerrunni heim á hlað og við héldum áfram til Reykjavíkur.  Eins gott að Obbi var að keyra því hann bjargaði því sem bjargað var. (eða hvernig sem maður segir þetta). 
SlyssSlys

Nágrannagæsla

Það er nú bara þannig að heimur versnandi fer og þörfin fyrir nágrannagæslu og ýmisskonar gæslu fer vaxandi.  Strákarnir og stelpurnar á varðskipinu Tý ákváðu að svara huglægu kalli mínu og hafa undanfarna daga legið fyrir utan eldhúsgluggann hjá mér og fylgst með nágrenninu, jólatrénu og bryggjunni minni.  Ég er mjög örugg og hef ekki einu sinni fundið þörfina hjá mér að læsa húsinu ef ég skrepp af bæ.  Ég sef meira að segja með opna útidyrahurðina.  Þetta er nágrannagæsla í lagi.  Það eina sem vantar er að TF Líf eða Sif "hoveri" hérna yfir mér á nóttunni til að passa draumfarir mínar.  Einnig væri fullkomið ef Landsbjörg eins og hún leggur sig myndi tjalda í fallegu munstri hæfilega nálægt heimilinu.   Hehe en annars hef ég svakalega góða reynslu af fólkinu um borð í varðskipinu eftir að hafa unnið með þeim í þónokkrum myndum og eru þeir velkomnir á zodíac í kaffi hvenær sem er í Hafnirnar fyrir gæsluna. 
NágrannagæslaTýr besti nágranni í heimi

Undur og Stórhveli í Höfnum!

Jæja þá er farið að róast hjá mér vinnulega séð en ég er samt með svo mörg ál í eldinum að álverð hefur hækkað umtalsvert á heimsvísu samkvæmt mogganum í dag!   Stundum held ég að það sé eitthvað alvarlegt að hausnum á mér sjá dæmi að neðan.

Ég fór í göngutúr um fjöruna mína í gær með Rósu Anúbis og var í makindum mínum þegar ég alltí einu sá eitthvað ferlíki liggja upp við steinana.  Ég stoppaði og horfði á flykkið og það fyrsta sem mér datt í hug var "guð minn góður....er þetta fíll?"   Ég er ekki að grínast þarna stóð ég og gapti af undrun!  Gott ef ég hélt bara ekki niðrí mér andanum.  "guð minn góður það hefur fíll drukknað í Afríku og hann hefur rekið alla leiðina hingað og liggur nú rotnandi í fjöruborðinu hjá mér".   Ég fékk gífurlegan hjartslátt meðan ég reyndi að koma ró á hugsanir mínar "shitt í hvern á ég að hringja?" .  Ég sá fyrir mér allar sjónvarpsstöðvar landsins koma og taka viðtal við mig og ég var byrjuð að ímynda mér hvað ég ætti að segja "já ég var nú bara á gangi þegar ég tók eftir fílnum og ........".   Ég næstum hoppaði og skoppaði af gleði þegar ég gekk fram fyrir dýrið.  Þar horfði ég stórum augum á líkið í fjöruborðinu og skoðaði það betur.   En hvaða hvaða voðalega skrítnar lappir á þessum fíl!  Hann virðist bara vera með eina afturlöpp.  Nú æstust leikar!  og viðtalið í hausnum mínum hélt áfram.  "já svo virðist vera sem þessi fíll sé einnig vanskapur og hefur hugsanlega drukknað útaf því að  hann er bara með eina löpp.........".  Laust þá ekki niðrí kollinn á mér sem er svakalega skemmdur, að þetta gæti svo sem verið hvalur!  ooooohhhhhh og púsluspilið raðaðist upp og tveir plús tveir urðu aftur fjórir og lífið varð venjulegt á ný.  Engin CNN, Stöð 2 eða Rúv í heimsókn í Hafnir.  Þetta er víst meðalstór Hrefna sem liggur nú og rotnar í flæðamálinu.  Ekkert spennandi!   En að mér skildi aldrei detta í hug að þetta gæti verið Hvalur er með hulin ráðgáta!  Nei auðvitað er þetta fíll.  En ef þið skoðið myndirnar þá sjáið þið kannski að aftan frá virkar þetta eins og fíll!  Fíllinn og Fíflin Afrískur Fíll
Einfættur Fíll


28/7 ég lifi eftir því!

Já það er sjaldan lognmolla í kringum mig.  Ég hef þann einstaka hæfileika að flækja líf mitt og gera það svona ofurbíssí.  Undanfarnar vikur er ég búin að vera með aðra löppina á Akureyri og Selfossi, vinna við áramótaskaupið, vinna við nokkrar auglýsingar, flísaleggja og sýningastjórast uppí Loftkastala.  Mér finnst ég stundum soldið vinna eins og það sé enginn morgundagur og ef ég sé frammá 10 mínútna pásu þá er ég fljót að fylla hana.   Vinir mínir segja að þetta sé vegna þess að ég eigi erfitt með að segja nei en NEI ég held ekki, mér finnst bara allt svo svakalega góð hugmynd. 
Ég fór í síðustu viku á söngvakeppni í FSU og Vá ....mig minnir að þegar ég var á þessum aldri 16 til 20 ára þá var ég ekki svona hæfileikarík og er reyndar heldur ekki núna þótt ég taki stundum stökk í Singstar og rústi því.  Krakkarnir sem stigu þar á svið voru hver öðrum hæfileikaríkari og þessi kvöldstund var algerlega frábær.  Ég er að fara að leikstýra þessum krökkum eftir áramót og eftir að hafa séð þetta performans þá eiginlega get ég ekki beðið og the sky is the limit I can tell you.  En meira seinna þegar ég er búin í skaupinu og með flísalögnina. 


Hundablogg

Ok ég lofa að þetta er ekki að verða hundablogg. Lof lof. En mig langaði bara að segja ykkur að nú er ég búin að vera í viku á Akureyri með Rósu litlu og hún var algerlega stórkostleg. En ég hef aldrei vitað hund sem er latur og fílar ekki veðrabreytingar. Fór í göngutúr í Kjarnaskóg með hana og hún vældi og röflaði allan tímann þangað til ég þurfti að halda á henni síðasta kílómeterinn. Þá lá hún á öxlinni á mér með snudduna sína og var ánægð með göngutúrinn. Skrítin hundur. En dýralæknirinn á Akureyri gaf henni ullarpeysu til að vera í í frostinu og svo keypti ég hundaöryggisbelti. Svo lá hún í fletinu sínu, í ullarpeysu, með snuddu og bílbelti þegar við keyrðum til Reykjavíkur og lífið er dásamlegt.

Alltaf í beltiMeð snudduna sínaÍ ullarpeysu

 


Öll í kleinu

Það vantar í mig millikafla!  Og reyndar alveg fleiri blaðsíður ef út í það er farið.  En svona er ég bara og kann ágætlega við hluti sem hafa upphaf og endi og þá sérstaklega góðan endi.  Ég hef aldrei verið sú besta í að bíða, gera hlutina hægt, eða ígrunda of lengi eða staldra við.   Ekki misskilja mig, ég er ekkert tryllt!  Ég er bara þannig að mig langar að vita hvað ég get, hvort ég geti það eða verð að prófa til að mynda mér skoðun.   Þannig er mál með vexti að ég hef aldrei getað bakað, það vantar í mig þetta húsmæðragen.  Get rétt svo vaskað upp og næstum því ryksugað!  Nema hvað um daginn þá datt mér í hug að það væri kannski komin tími til að baka!  Og ég ákvað að byrja á einhverju svona auðveldu og ákvað að baka kleinur!   Og viti menn, það er bara ekkert mál.  Eiginlega PÍS OF KEIK! (takið eftir orðaleiknum með keik).  Kleinurnar voru svakalega góðar fyrsta klukkutímann eftir baksturinn en síðan eiginlega bara ógeðslegar og vil ég kenna hjartarsaltinu um þó ég viti ekki alveg afhverju!  Ætla næst að nota matarsóda og smá engifer, veit samt eiginlega ekki afhverju!   Spennandi.  Héðan í frá ætla ég að baka kleinur einu sinni í viku!   Meðan ég bakaði vingaðist Rósa litla við Sóma og sváfu þau saman á uppáhaldsstólnum sínum meðan ég steikti.  Loforðið ég:  Ég ætla  að verða kleinubakari af Guðs náð.  
HveitikastKleinur að sofaKleinur í pottiAfraksturinnAllt í hund og kött


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband