Færsluflokkur: Bloggar

Ég er dýrahvíslari

IMG_2788Kvikmyndagerð er fríkað fyrirbæri!  Áðan heyrðist í talstöðinni:

Rödd:  Garún kom inn

Garún:  Já Garún hér

Rödd: Þú átt ketti er það ekki?

Garún: Jú mikið rétt 5 stykki.

Rödd:  Ok getur þú þá komið og hugsað um öndina??

Hvernig aðstoðarleikstjóranum datt í hug að ég væri eitthvað betri en aðrir varðandi endur útaf því að ég á ketti get ég ekki útskýrt.  En á settið fór ég sem sérstakur andarinnar sérfræðingur.  Héðan í frá vil ég vera kölluð Garún Attenborough. 

Að læra að tala önnur tungumál!

Einu sinni sótti ég um í kvikmyndaskóla í Danmörku!   Þetta er einn fremsti kvikmyndaskóli evrópu og ég var mjög spennt að komast inn í hann!  Ég gerði allt sem ég átti að gera.  Skrifaði úrdrátt úr kvikmynd sem ég hafði fengið hugmynd að, skrifaði hjartnæmt bréf um hversu góður námsmaður ég ætlaði að verða og var háfleyg í hugmyndum mínum um komandi vinskap við samnemendur mína sem ég ætlaði að kynnast og búa til kvikmyndir framtíðarinnar með!   Þessi skóli sem um ræðir tekur inn aðeins 6 nemendur annað hvert ár og er með útskrifuð nöfn eins og Dagur Kári, Billie August og margir af okkar fremstu leikstjórum í dag.  Cirka 1500 manns sækja um.  Ég var reyndar ung og vitlaus og sótti um í framleiðendadeildina!  Nú jæja ég komst áfram og var boðuð til Danmerkur í próf!  Ég tók prófið sem var á dönsku en skrifaði svörin á ensku og komst upp með það.   Áfram komst ég og nú var ég komin í svokallaðan 12 manna hóp, nú var ég kölluð í viðtal við kennara skólans.  Ég fór og um leið og ég gekk inní herbergið sá ég 6 manna sem voru tilbúin að hlusta á hugmyndir mínar og mér leið eins og ég væri "center" athyglinnar.  Ég settist niður og spurði hvort það væri nú í lagi ef ég myndi tala ensku, ég væri nú ekki alveg flugfær á dönskunni og væri í ofanálag stressuð þar sem um framtíð mína væri að ræða.  5 hausar af sex kinkuðu kolli og ég brosti.  Einn kollur sagði upphátt "Nej du skal snakka dansk!"  Um leið og hann sagði þetta vissi ég að ég væri ekki að fara í þennan skóla, því hver getur sjarmerað einhvern á fimmtán mínútum á dönsku?    Hinir 5 kollarnir horfðu á mig eins og þeir væru óviljugir hermenn í aftakasveit og ég beit á jaxlinn og ákvað að tala þá bara íslensku með dönskum hreim!   Í 10 mínútur nauðgaði ég danska tungumálinu og sló í gegn sem tungumálaheftasti dvergur í sögu skólans.  Það var ekki fyrr en undir það síðasta að einhver spurði mig á dönsku "afhverju heldur þú að þú getir orðið góður próducant?".   Þá ákvað ég að ég skildi sjarmera þau með karakternum Garúnu svo ég sagði " Fordi jeg har kreb".   Nú kom alveg rosalega sorglegur svipur á þau öll og þau horfðu á hvort annað og enduróku spurninguna.    Og ég endurtók helvítið  "Fordi jeg har krebt í benen" og barði sterklega í upphandlegginn á mér.   Eftir það fóru þau bara að taka til og þegar ég var að fara óskaði konan í hópnum  mér góðs gengis og knúsaði mig.    Danir eru klikkaðir hugsaði ég!    Nokkrum dögum seinna fékk ég svar frá skólanum um að ég hefði því miður ekki komist inn.    

Nokkrum mánuðum eftir það var ég að horfa á Discovery Channel og byrjaði þá þáttur sem hét "Krebs í Denmark" og fjallaði um KRABBAMEIN!!!!!!  Sem sagt KREB þýðir Krabbamein.........

Ok, sem sagt ég komst ekki inní skólann afþví að þau héldu að ég væri með krabbamein, og ekki flóknari en svo, þau héldu að ég væri með krabbamein í löppunum!!!!!    Nú í dag er ég aðstoðar leikstjóri hjá Degi Kára sem er ekki með krabbamein í löppunum og er frábær leikstjóri.   Já mig langaði bara svona að segja ykkur þetta.      Já já


Lífið er Sudoku þraut sem ekki er hægt að leysa

Þegar ég var lítil þá hlakkaði ég svo til að verða fullorðin.  Fannst þeir fullorðnu svo flottir og með allt á hreinu.  Allir einhvern veginn "in control" og svona öruggir.  Síðan eru liðin svona tuttugu ár og ég er enn að bíða eftir að ég fái staðfestingu í pósti á því að ég sé orðin fullorðin.  Mér líður hvorki "in control" né flott þótt ég sé fullorðin.  Annað sem ég hef tekið eftir að þeir sem eru fullorðnir með mér eru líka totally týndir og bara algjörlega að missa það.  Nú stend ég uppi 32 ára og með enga fyrirmynd og stend sjálfan mig að því að vilja EKKI vera fullorðin.    Það er erfitt að vera orðin stór og hafa enga afsökun að leika sér með lego kubba, nú er næstum hver mínúta Sudoku þraut og að láta enda ná saman er samvinna yfirkeyrslu á líkama og sál.  Að hafa tíma fyrir fjölskylduna er bara orðin míta sem maður les í bókum og að hafa tíma til að slaka á og gera eitthvað fyrir sjálfan sig er orðið svo sjaldgæft að maður upplifir sig sem Geirfugl nútímans útdauður en dragandi inn andann.  Hvar erum við?  Lífið er orðið svo hratt og þátttakan í því er orðin eins og maður sé stöðugt í reipitogi við að vilja ná einhverjum ímynduðum árangri eða að ná hinni eftirsóttu innri ró, sem maður finnur aldrei því maður er alltaf á hlaupum.    Ég er alls ekkert svartsýn ég er bara að pæla aðeins í þessu.   Stóð sjálfan mig aðþví í dag á leiðinni í næturtökur á bíómyndinni Brim þar sem ég var að dæla bensíni á litla pólóinn minn að ég er að vinna eins og skepna til þess að eiga fyrir bensíni til þess að geta mætt í vinnuna til að vinna eins og skepna.  Hm, það er eitthvað rangt við það að þurfa að biðja um greiðsludreifingu þegar ég fylli bílinn minn.   Segið mér eitt, var auðveldara að vera fullorðin þegar ég var barn eða hefur þetta alltaf verið svona..??

Photoshop my ASS

Ég las á Vísi punktur.is að Liz Hurley er byrjuð að photoshopa fjölskyldumyndirnar sínar.  Ussubuss....ekki þarf ég að photoshoppa neitt......Og hef reyndar aldrei gert.   Reyndar hef ég photoshopað vini inná myndir úr afmælum mínum og svoleiðis en ég hef alltaf leyft sjálfri mér að vera bara ég....   Hérna er til dæmis ein mynd af mér alveg laus við alla tilgerð og photoshop.   bilde

Bara 83 ára og eldri konur fá nýrnasteina

Ég afsaka hvað ég hef verið glötðu í að blogga.  En þannig er það nú að "Guð" ákvað að mig vantaði lífsreynslu til að móta karakter minn í þeirri lífsbíómynd sem líf mitt er að verða.  Hann ákvað að mig vantaði sársauka og tár til að mótivera sjálfan mig í að finna mitt innra sjálf sem by the way ég var ekkert að leyta að!!!   Ég fékk nýrnasteinakast.      (áhrifaþögn).........(áhrifaþögn 2).........

Já sko.  Það byrjaði allt með því að ég átti tvo daga í fríi í bíómyndinni BRIM þar sem ég var búin að æla úr mér innyflunum, búin að bonda geðveikt við landhelgisgæsluna og búin að sætta mig við þá staðreynd að ég yrði örugglega aldrei james bond hafsins.  Ég kom heim og var að setja DVD í tækið og ætlaði nú aldeilis að hvíla mig.....Nei nei kom þá ekki sársauki og þjáning í heimsókn frá fyrra lífi og innvið Garúnar öskruðu á athygli.  Cool sem ég er, hrundi ég á gólfið og reyndi að ná andanum og skilja afhverju þessi fullkomna OKfruma sem móðir mín og faðir höfðu frjófgað hafði ákveðið að reyna að enda líf sitt á eldhúsgólfi í litlu þorpi í Reykjanesbæ.  Ég skreið að GSM símanum mínum sem hafði af einskærri gleði ákveðið að vera uppá Ísskáp  og hringdi í leigubíl....símtalið:

Stöð: Daginnnnnnnnnnnnnnnnnnnnnnnn

Ég:  Ég er að deygja

Stöð:  Hvar áttu heimaaaaaaaaaaa?

Ég:  Hafnir....þú veist Hafnir  shittt ég er að deygja...

Stöð:  Já já ertu í höfnum?

Ég: Já HELVÍTIS ANDSKOTANS AAAAAAAARRRRRRRRRGGGGGGG(útaf sársauka)

Stöð: Þú verður að hringja á sjúkrabíl

Ég:  Þeir svara ekki ég man ekki númerið......veistu númerið AAAAARRRGGG

Stöð:  Hringdu í 118

Ég:  Sendu mér bíl....NÚNA

Stöð:  Viltu stóran bíl fyrir hjólastól??

Ég:  Nei en þú skalt fara að panta þér einn..........

Eftir þetta sendi hún mér bíl og beint uppá sjúkrahús í Reykjanesbæ fór dvergurinn öskrandi af kvölum.   Hér eftir stofna ég stuðningshóp leigubílstjóra sem þurfa að ferja nýrnasteinakastandi dverga úr höfnum á spítala....

Er að jafna mig ..... 


Afhverju kom það ekki til baka?

Búmerang virkar úti í geimnum

Sérstæð tilraun japansks geimfara hefur leitt í ljós að búmerang virkar eins úti í geimnum og það gerir á jörðinni. Geimfarinn, Takao Doi, gerði þessa tilraun er hann var á frívakt fyrr í vikunni í Alþjóðlegu geimstöðinni, að því er talskona japönsku geimvísindastofnunarinnar greindi frá í gær.

Doi kastaði búmeranginu - eða bjúghverflinum, eins og það hefur verið nefnt á íslensku - og varð „mjög hissa á að sjá að það flaug nákvæmlega eins og það gerir á jörðinni,“ sagði Doi er hann ræddi við konuna sína utan úr geimnum.

Doi gerði tilraunina að beiðni landa síns Yasuhiro Togai, sem er heimsmeistari í búmerangkasti.

Þið sem hafið komið hérna á síðuna mína reglulega hafið kannski tekið eftir því hversu ástríðufull ég er gagnvart rannsóknum vísindamanna á hinum ýmsu hlutum sem gætu hugsanlega bragðbætt líf okkar eða bætt lífsgæði okkar til muna.   Miðað við fréttir undanfarið þá finnst mér Japanir hafa verið brautryðjendur í þessu óeigingjarna starfi sem lifandi vísindi eru.  Fyrir nokkru þá bloggaði ég að mér fyndist ekki vel farið með peninga sem settir eru í rannsóknir sem þessar en nú verð ég að éta hatt minn, standa upp og klappa dramatískt með tárin í augunum.  Það er ástæða fyrir því að ég gagnfræðaskólamenntuð skil ekki ba eða masters skólagengna vísindamenn og ástæður þeirra fyrir rannsóknum sem svo greinilega geta bætt úr þeim vandamálum sem steðja að okkur mannkyninu á hinu herrans ári 2008.  ÉG ER HEIMSK.  Ég finn mig knúna til að skrifta og játa vankunnáttu mína gagnvart búmerangi og var hreinlega búin að gleyma hinni djúpu þrá minni að vita hvernig búmerang hegðaði sér innan um gammageisla og sólarvinda fyrir ofan lofthjúp jarðar.  Ég roðna og skammast mín er ég ætlaði að skrifa hér kaldhæðnislega færslu um þessa rannsókn vitandi vel hversu örvæntingafull ég var árið 1988 þá tólf ára útá túni í sveitinni með neongræna búmerangið sem mamma keypti á bensínstöð og sama hvernig ég kastaði því aldrei kom það til baka heldur lá í grasinu hlæjandi, bíðandi eftir því að ég brotnaði niður undan álagi.  Ég man hvernig ég lippaðist niður í grasið með svalan sumarvindinn í hári og nokkur tár tifuðu niður andlit mitt meðan ég reyndi að skilja hvað það væri við mig sem gerði það að verkum að ég gæti ekki kastað búmerangi eins og restin af heiminum gerði.  Ég hefði eflaust getað breytt framtíð minni, orðið sjálfsöruggari og fallegri manneskja hefði ég bara fattað að búmerang hegðar sér alveg eins útí á túni og útí geimnum.  En nú eru liðin mörg ár og ég hef aldrei snert aftur búmerang, aldrei hlupið útá tún hlæjandi spennt yfir komandi leik, né hringt í vini mína og skipulagt búmerang turnament eða setið í grillveislu þreytt eftir köst dagsins, fullnægð og ánægð með árangur minn í þeim efnum.  Ég vil nota þetta tækifæri og þakka þessum Takao Doi fyrir að hafa sannað þetta og bið alla góða vætti að vera með honum þegar hann ákveður að prufa hvort að það sé lykt af fretinu hans í þyngdarleysi geimsins.  God speed Takao.  


Við hvað vinnur þú?

Kæri dómsmálaráðherra.
Ég ætla að skrifa þessa færslu eins hægt og skýrt og mér er unnt, svo að þú eigir auðveldara með að skilja hana! Ekki taka hana persónulega þar sem ég þekki þig ekki einu sinni og ekki þú mig. Ég hef aldrei talað við þig, aldrei hitt þig og aldrei kosið þig. En ég geri þá kröfu að þar sem þú ferð með umboð mitt í þínu starfi að þú vinnir vinnuna þína.
Ekki veit ég nákvæmlega hvað þú gerir eða hversu marga aðstoðarmenn þú hefur, en það er ljóst að þú ert ekki svakalega mikið upptekin af því að laga fáránlega kynferðisdóma, eða gefa skýrar línur í heimilisofbeldisdómum, ekki ertu brjálæðislega upptekin af því að laga andlega líðan fanga í fangelsunum þínum, ekki ertu að vinna yfirvinnu útaf barninu sem dvelur í hegningarhúsinu sem stendur á móti föndurbúð á Skólavörðustígnum þar sem barnið í rauninni ætti að vera. Ekki fara margar vinnustundir hjá þér við að fjölga lögreglum á landsbyggðinni né í miðbænum um helgar.
Það virðist vera að tíma þínum sé að miklu leyti eytt við að koma mönnum í fangelsi sem millifært hafa á sig nokkrar milljónir og það virðist vera meiri glæpur að svíkja undan skatti heldur en að misnota barn á Íslandi í dag. Nú veit ég að ég fæ örugglega athugasemdir að þú hafir ekki einn um þessi mál að segja, þetta séu þessar og hinar nefndirnar og að Alþingi þarf að blablabla til að þú getir blablabla....En kæri dómsmálaráðherra. Mér er sama hverjum þetta ástand er um að kenna og hvað þarf að gera til að það breytist og við hvern þarf að tala til að það gerist. Ég vil bara að þú sjáir um það. Það ætti að vera þitt starf. Ekki flækja hlutina fyrir mér með orðskrúði eða málefnalegum pólitískum málalenginum. Farðu bara og lagaðu þetta STRAX eða fáðu einhvern annan til að gera það. ALLT ANNAÐ MÁ BÍÐA.
Fyrir ágúst á þessu ári er það mín krafa að þú notir launin þín í að launa þér fyrir eftirtalda vinnu og árángur:
nr.1 Komdu þessu barni á Skólavörðustíg í hendur á einhverjum sem getur hjálpað því, ef það er engin á Íslandi sendu það þá til Danmerkur þar sem fólksgildi virðist vera hærra en hér.
nr.2 Breyttu lögunum (ekki kasta Alþingisklausunni á mig) svo að þeir aðilar, men og konur sem misnota börn eða fullorðna kynferðislega fái þunga dóma og aðstoð. ATH. 3 mánuðir er ekki þungur dómur ef þú ert að velta því fyrir þér....
nr.3 Breyttu lögunum (ekki kasta Alþingisklausunni á mig) þannig að þeir sem ganga í skrokk á konum sínum eða mönnum fyrir framan börn sín eða ekki fái jafn þunga eða þyngri dóma en þeir sem slást um helgar fyrir utan bari og vínhús.
nr.4 Sjáðu svo um að það sé ekki hægt að milda dóma yfir mönnum eða konum sem lúberja maka sína og segja að þeim hafi verið ögrað, eða að makinn sem var barinn hafi "byrjað", Eða fyrirgefðu "átt upptökin" eins og það heitir á lagamáli.
nr.5 Settu einn af aðstoðarmönnum þínum, má vera símastúlkan. Í að fara um landið og taka úttekt á löggæslu þar og bættu síðan úr henni og tækjakosti. Skattpeningarnir verða nefnilega ekki minna virði miðað við fjarlægð frá höfuðborginni eins og virðist vera.

Ef af einhverjum ástæðum þú sérð þér ekki fært að laga þessa hluti, viltu þá vinsamlegast segja afþér og hleypa manneskju að sem er þó allaveganna tilbúin að reyna.

Ég veit að þetta bréf er hvorki málefnalegt eða með lagalegan rétttrúnað, en mér er alveg sama. Ég vil breytingu og það strax.

Þinn skattgreiðandi
Garún


Japönsk rannsókn nr.56433

Ok aftur um heimskulegar rannsóknir. Ég las þessa frétt (neðst í færslunni) í morgun og fann mig knúna til að gera eigin rannsókn á þessum efnum, þar sem ég er ekki hvít rotta sem sprautuð hefur verið með etanoli eða saltupplausn. Ég ákvað að búa til minningu um að hafa lesið þessa frétt og hófst svo handa. Til að spilla ekki rannsókninni með utanaðkomandi áhrifum fór ég í sturtu og skrúbbaði mig með klór og sótthreinsaði mig. Ég klippti neglur á höndum og fótum og kembi hárið og fjarlægði þau dauðu og veiku. Nú var ég tilbúin. Ég settist við eldhúsborðið með whiskey flösku fyrir framan mig og eina bjórkippu (íslenska). Eftir tvo bjóra og fjögur whiskey skot lokaði ég augunum og reyndi að muna eftir rannsókninni sem ég las, viti menn ég mundi vel eftir henni. Ég skráði niður þessa uppgötvun á blað við hliðina á mér. Hélt áfram. Þegar samtal fjórir bjórar voru búnir og 8 staup lokaði ég aftur augunum og datt af stólnum. Smá svona setback en hetjan sem ég er klifraði aftur upp og reyndi að muna eftir rannsókninni. Eitthvað varð minningin skrítin, nú var ég ekki viss hvort þetta hefði verið japönsk eða kínversk rannsókn og mér fannst eins og þér höfðu notað mýs í staðinn fyrir rottur. Þarna fór ég reyndar að hágráta yfir litlu Jennunum sem höfðu dáið við að færa mér þessa rannsókn, ég skellti öðru staupi í mig og skráði athugasemdir niður á blaðið meðan ég barðist við grátinn. Ég kláraði kippuna og þegar ég vaknaði aftur eftir þrjá tíma í eigin slefi á eldhúsborðinu mundi ég ekki alveg hvað ég var að gera þarna. Ég leit á blaðið við hliðina á mér og reyndi að lesa skriftina á því. Þar stóð. " Man allt! Held áfram". Síðan kom bil og skrift með þónokkuð stærri stöfum tók við "helv..ég verð að muna að taka úr vélinni fyrir kínverjana, ekki geta þér rannsakað naktir?"

NIÐURSTAÐA:Áfengi fær mann til að gleyma japönskum rannsóknum en muna eftir kínverskum. p.s vegna höfuðverks og ógleði ætla ég að hætta þessari rannsókn og rannsaka svefnvenjur dverga á Reykjanesi..

"Flestir hafa eflaust heyrt um það að menn drekki sorgum sínum og drekki til að gleyma. Samkvæmt nýrri japanskri rannsókn á þetta ekki við rök að styðjast því svo virðist sem að áfengið eyði ekki slæmum minningunum heldur haldi þeim á lífi. Vísindamenn við háskólann í Tókýó komust að því að etanól, sem veldur því að fólk kemst í áfengisvímu, fær fólk ekki til að gleyma, heldur þvert á móti festir minningarnar í sessi. Vísindamennirnir, sem lyfjafræðiprófessorinn Norio Matsuki fór fyrir, gáfu tilraunarottum vægt raflost til að gera þær hræddar. Rotturnar urðu því stjarfar þegar eitthvað ógnaði þeim og þær hnipruðu sig saman þegar þær voru settar í búrin sín. Í framhaldinu gáfu vísindamennirnir rottunum strax etanól eða saltlausn með sprautu. Þeir komust að því að rotturnar, sem fengu etanólið, urðu mun lengur stjarfar af hræðslu, en rottur sem fengu saltlausnina. Fram kemur að óttinn hafi varað að meðaltali í tvær vikur."  


mbl.is Drukkið til að muna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég ætla að halda jólin í Olíuhreinsunarstöðinni á vestfjörðum

Mér finnst stundum svo frábært hvað fólk er jákvætt og fallegt.  Ég var að enda við að lesa frétt af fundi sem haldin var á Ísafirði sambandi við Olíuhreinsunarstöð og þegar hann Árni formaður náttúruverndarsamtakanna sagði að það yrði gífurleg sjónmengun frá stöðinni þá svaraði hann Ólafur Egilsson stjórnarformaður íslensk hátækniiðnaðar að hann væri bara ekki sammála og var þess fullviss að margir túristar og aðrir myndu leggja leið sína í skammdeginu að stöðinni til að baða sig í ljósadýrðinni.  Mér hlýnaði um hjartarætur og hugsaði með mér að hann Óli hlyti nú að vera svona eilífðarbarn sem tryði á jólin allan ársins hring.  Svona líka jákvæður með eindæmum.   Ég verð að viðurkenna að það er sterkur punktur í þessum rökum hjá Ólafi, ég rifjaði upp mér til skemmtunar hversu oft ég fór á síðasta ári að Grundartanga og sat í hlíðinni fyrir ofan álverið með samloku með mysing og horfði á ljósadýrðina og ryðkláfana. 

Ég skrifaði líka niður allar þær dagsetningar sem ég fór að álverinu í Straumsvík, með bók, teppi og heitt kakó í brúsa og hallaði mér upp að kerskálanum um leið og ég baðaði mig í ljósadýrð álversins.  Á síðasta ári gerði ég einnig annað, ég fór í Arnarfjörð og eyddi þar ömurlegum sex dögum í ógeðslegri náttúruperlu, ró og það voru engin ljós né ryðkláfar, né fallegar vinnuvélar í jarðraski og ég verð að segja að fuglalífið og fjallasýnin var farin að fara verulega í taugarnar á mér undir það síðasta.  Ég stóð ofarlega í hlíðinni og horfði á sólina setjast um leið og ég hugsaði að það eina sem vantar á þessum væmna stað væri Olíuhreinsunarstöð. 

Hvernig væri að við Íslendingar hættum þessu röfli öllu saman, horfum alvarlega til framtíðar og fyllum landið af stóryðju og verksmiðjum.  Hættum að pæla í hugviti eða að dreifa kannski verkefnum útá landsbyggðina sem eru nú þegar í höfuðborginni, hættum líka að spá í þessar fjórar krónur sem þessir blessuðu þýsku túristar koma með inní landið.  Hættum bara að pæla og gerum þetta bara.  Græða núna, síðan deyja og láta aðra um að baða sig í ljósadýrðinni.

Og spurningar að lokum.   Ef að eitthvað annað væri í boði fyrir utan olíuhreinsunarstöð á vestfjörðum, væru íbúarnir þá svona hrifnir af stöðinni??   

Ef að það væri annað í boði á Bakka hjá Húsavík, væru þá Húsvíkingar svona glaðir með Álver?  

Erum við ekki bara búin að svelta landsbyggðina það lengi að hún er farin að éta það sem henni er rétt.   Sama og mamma sagði alltaf "þú borðar þetta þegar þú ert orðin nógu svöng"....Og viti menn, krakkaskrattinn át það.   


Í upphafi var drama og síðan kom ljósið

Hér fyrir nokkru þá bað ég um meira drama í sjónvarpsþáttunum "ráðhúsið" sem ég er búin að vera að fylgjast með eins og þið vitið og viti menn, það virkaði.  Haldið ekki að nú er Gísli Glaði ekki glaður og það virðist vera sem hann sé búin að fremja eitthvað pólitísk sjálfsmorð ef ég er að skilja leikfléttuna rétt.  Það virðist vera sem að allir í þáttunum séu að missa vitið.  Nú er Hanna orðin borgarstjóraefni og Villi neitaði að koma í partý og Gísli Glaði er bara að drepa máva á fullu.  Hver getur ekki annað en fylgst með.  Gestaleikari vikunnar er engin annar er Össur Skarphéðinsson sá margreyndi leikari okkar Íslendinga en ég verð að segja að sú ákvörðun handritshöfunda að leyfa honum að skrifa sinn eigin texta er vafasöm.  Fyrir vikið verður karakter hans ósympatískur og það virðist vera nær engin aðdragandi að offorsi hans í garð Gísla Glaða og mótívið er ekki á hreinu,en kannski skilst þetta á næstu vikum.  Sjónvarpsaugað mitt samt gladdist þegar hann síðan kom í kastljósið til að "ekki afsaka" ummæli sín, hvað á það að þýða?  Mér finnst kastljós senurnar vera farnar að snúast um það hvað fólk er "ekki" að gera og ætlar "ekki" að segja.  Ég bíð bara núna eftir að jólin komi, er þess fullviss að í einhverjum jólapakkanum sé "directors cut" af Ráðhúsinu og milli jóla og nýárs ætla ég að sökkva mér í aukaefnið á DVD diskunum.  Ég vona að þeir geri aðra seríu...Ég er alla veganna orðin húkkt og græt yfir ástum og örlögum þessara einstaklinga í Borgastjórn. 

En ein spurning....væri ekki sniðugt að láta Björn Inga birtast aftur sem varamann fyrir sinn varamann, þá væri gaman að sjá hvernig karakter Villa Vil bregst við.....Núna veit ég afhverju pólitík heitir póliTÍK.  

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband