Er 9.999 ekki nóg?

Það er konugrey í Englandi sem er ekki með alla múrsteinana á réttum stað!  Hún er búin að vera að fjölga og lífga við köngulóategund sem var við það útrýmast.   Er þessi kona ekki með öllu mjalla?  Nú er ég búin að vera að agintera fyrir því statt og stöðugt í mörg ár að það sé til ALLT of mikið af köngulóm (yfir 10.000 tegundir).   Ég hef hótað að flytja ef ég sé eitt stykki á heimili mínu, fer ekki í útilegur og ætla aldrei....ég endurtek ég ætla aldrei til Ástralíu því þar er gegnsæ könguló til sem lifir í klósettum og bítur mann í rassinn víst!   Kemur ekki til greina. 
Og nú leit úr fyrir það að 9.999 tegundir væru staðreynd þá ákveður einn klikkhausinn að rækta köngulær heima hjá sér og sleppa þeim síðan lausum á plánetunni.  Hvernig fékk þessi köngulóasleikir það út að 9.999 tegundir væru ekki nóg fyrir vistkerfi heimsins!!!   Og aumingjans konan er búin að vera ósofinn að gefa þessum áttfætlum lirfur og flugur.  Þær vildu deyja en hún bara blés í þær lífi og kleip þær til lífs.  Ég er búin að setja hana Helen Smith á listann minn yfir manneskjur sem ég vil ALDREI hitta.  Og ég lofa ykkur því að ef einhvern tímann ég hitti hana Helen Smith og hún bíður mér í heimsókn þá mun ég ekki þiggja það!   
Er ekki í lagi?     Að rækta köngulær?  Hvað dettur henni næst í hug? 


mbl.is Ól 3.000 köngulær í eldhúsinu sínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þurfum við alla þessa þingmenn?

Ég hreinlega skil ekki.  Og jú þó ég skil alveg en ég skil samt alveg eiginlega ekki sko.  Niðurskurður hér og þar.  Burt með skurðdeildir, burt með heilsugæslu, burt með fólk úr vinnu og burt með fólk úr húsunum sínum!  
Ég ætla ekki að reyna að skilja til hlítar vandann sem stendur að okkur Íslendingum þessa dagana.  En mér finnst eitthvað skrítið þegar það á að hjálpa fólkinu í landinu með því að segja því upp í vinnunni og taka af þeim húsin.  Ef niðurskurður mun hjálpa þessari aumu þjóðarskútu þá vil ég fara að fá svar við því hverjir eru eiginlega farþegar í þessari skútu.   Það þarf að hagræða og skera niður svo að það sé hægt að leysa hinn og þennan vanda fyrir fólkið í landinu.  En hvaða fólk.  Hvaða fólk mun hagnast á því að missa vinnunna sína, missa húsnæðið sitt og viðurværi.  Erum við komin í einhvern prósentuleik sem enginn skilur.  Þarf að hagræða um þetta og hitt prósent?  FYRIR HVERN.  Mun ég hafa það betra ef að 100 fjölskyldur á Suðurnesjum missa heimilin sín?  Mun ég hafa það betra hérna í Höfnum ef að 1000 manns missa vinnuna sína?    HVER ER EIGINLEGA Á ÞESSARI ÞJÓÐARSKÚTU OG FYRIR HVERJA ER ÞESSI HAGRÆÐING??????

Hér er önnur hugmynd.  Þurfum við 62 þingmenn?  Er ekki hægt að skera niður þar?   Miðað við þennan skrípaleik þá held ég að við fengjum alveg sömu niðurstöður ef við værum með 10 manns!  


Steinar til sölu!

Lítill vinur minn hérna í Höfnum fékk mig til að hugsa.  Hvernig ætli hrunið fari í yngstu meðlimi þessa lands.  Hvernig hugsa þau og raða hlutum saman í kollinum sínum. 

Ég fór út að labba í gær með Rósu Anúbis og hitti nokkra krakka sem voru að safna steinum!!!!  Fannst það í sjálfum sér gífurlega áhugavert.   Ég fór að spjalla við þau og ein stelpan sagðist vera að safna sjaldgæfum steinum sem hún ætlaði að selja til að eignast pening.  Gott og vel hugsaði ég og fannst þetta frábært framtak.  Ég tók eftir því að einn strákurinn var ekki jafn æstur í að selja steina og eiginlega nennti ekki að tína.  Ég spurði hann hvort hann ætlaði ekki að selja steina en þessi drengur var með önnur plön.  Hann ætlaði að vinna í Lottó.  Þriðji meðlimur þessara litlu framtíðarhóps var með litla rauða fötu og týndi steina eins og það væri engin morgundagurinn.  Sú stelpa var ekkert að skoða steinanna sérstaklega heldur hamstraði þeim í akkorði í fötuna einbeitt.  Þegar ég spurði hana hvað hún væri að gera svaraði steinasölu stelpan fyrir hana og tilkynnti mér að fötustelpan væri að vinna fyrir sig.   Það væri hún sjálf eingöngu sem ætlaði útí þennan rekstur. 
Þarna sem ég stóð úti við fjöruborðið helltist yfir mig sú tilhugsun að ég væri að horfa inní framtíðina og hefði fengið þverskurð samfélags beint í æð í gegnum þessi þrjú.  Sýnikennslu í hagfræði.   Áhugavert!   Ég spurði síðan drenginn hvað hann ætlaði að gera við peningana sem hann ynni í lottóinu og hann svaraði kokhraustur  "ég ætla að kaupa nammi, og eina bók". 
"það er frábært en hvað ætlar þú að gera fyrir afganginn?"  spurði ég.   Strákurinn hugsaði sig aðeins um horfði á vinkonur sínar og aftur á mig og svaraði "ég ætla að borga skuldir".   Strákurinn blés toppnum til hægri og lauk samtalinu við mig þar sem ég stóð agndofa yfir þessum krökkum. 

Strákurinn hefur verið svona 5 eða 6 ára og eitt af því sem honum dettur í hug að gera við peningana sína í framtíðinni er að borga skuldir.   Nú þegar ég skrifa þetta veit ég ekki alveg hvort þetta sé gott eða vont.  Veit ekki hvort það er heilbrigt að 6 ára barn sé staðráðið í að eignast skuldir, hvort hann sé að segjast ætla að borga það sem hann fær lánað, hvort hann upplifi að skuldir séu hans eina framtíð eða hvort hann sé búin að átta sig á því sem verið er að rífast um á alþingi og á öllum heimilum landsins að hann muni borga upp skuldir útrásavíkinganna hvort eðer og eins gott að fara að safna eða kaupa miða í lóttói. 

Ég alla veganna gekk skökk heim fann nokkra verðlausa hundraðkalla og ætla að vera tilbúin þegar steinasölu hópurinn gengur í hús og selur afrakstur hugvits síns.   


Kaffisteinn!

"making the way in the world today
takes everything you got
Takin a brake from all your worries
sure would help alot
wouldn´t you like to get away? " 
Svona hljómar byrjunin á þema lagi Staupasteins.  Vinalegt lag úr bernsku fyrir mig.   Auðvitað væri maður til í að fara eitthvert og slaka á þar sem allir þekkja mann og vita hvað maður heitir.  "where everybody knows your name".  Ég á svona stað!  Ég á svona stað sem ég hugsa til á hverjum degi.  Kaffitár!  Oft tvisvar á dag fer ég inná kaffihús Kaffitárs í Njarðvík og ég heyri tónlistina úr Staupasteini spila í hausnum á mér meðan Kolla, Erla, Hanna eða Sóley búa til kaffi latte handa mér án þess að ég bað um það.  "Hæ Garún mín" hljómar í hvert sinn sem ég kem þarna inn og allir eru brosandi glaðir.  Hvernig er veðrið í Höfnum?   Ertu að taka upp núna?  Hvernig hefur Rósa það?  Hvernig gekk í gær? og litli dvergurinn sem fór að kaupa sér kaffi finnst hann skipta máli í heiminum og líður öruggur og vel í kaffibrennslu á Suðurnesjum.  Kaffibrennslunni minni. 
Þarna eru listasýningar, fróðleikur um kaffi, frítt internet og glaðir starfsmenn sem allir kasta á mig kveðju þegar ég kem.  Ég fer ekki bara til að fá mér kaffi heldur ég fer eins og segir í textanum  "sometimes you wanna go - where everybody knows your name - and they are always glad you came".   

Kaffitár í Njarðvík er Staupasteinninn minn.


Skortir hugrekki og er illt í maganum!

Fjórtán villtir hestar, sextán hreinar meyjar og fimm kassar af döðlum fengju mig ekki til að sitja við borð með þessum manni.   Það eru einmitt svona menn sem mér finnst hálfgerðir Antíkristir.  Þeirra boðskapur fjarlægir okkur frá trú og kristnum kennisetningum.  Þeir predikera um fyrirgefningu, mannskilning, kærleika og umburðalyndi en eru sjálfir svo gerilsneyddir af þessum kostum að það hálfa væri nóg.  Meira að segja lítill dvergur á suðunesjum er illa undin og snúin útaf frekjukasti sveppasogara í Færeyjum.  En svo þegar ég les fréttina í heild sinni þá er ég bara ekki alveg með það á hreinu hvort að maðurinn sé í frekjukasti útí forsætisráðherra sinn eða konuna sína sem nennir ekki með honum út á djammið.  En ég skil hana vel ég myndi líka skammast mín að hitta fólk með þennan fordómaling.  Annað sem mér finnst ótrúlegt er að við erum öll í einhverjum hnút því að við erum greinilega búin að ÖGRA færeyingum með þessari heimsókn!  En hvað með að hann þessi fornaldarmaður sé að ÖGRA hinum sem búa í Færeyjum og eru ekki á sömu skoðun og hann?  Og hvað með að hann sé einfaldlega að ÖGRA okkur Íslendingum með þessari afstöðu sinni.  Svo kallar hann fólkið sitt bleyður eða með öðrum orðum þá segir hann að engin hafi það hugrekki sem þarf til að stinga uppá að samkynhneigð hjónabönd verði leyfð í Færeyjum.  Svona prívat og persónulega þá finnst mér það allt í lagi því frá svona samfélagi hljóta allir almennilegir Færeyingar að vera fluttir hvort eðer til Danmerkur eða Íslands.    Ég kem hér með ögrun til hans Penis Av Rana og hann má taka hana bókstaflega og vitna í hana......"Jenis þú ert ekki sannkristinn!!" og sendið þetta til volbúans í þokunni. 
mbl.is Gegn vilja Guðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvor kom á undan: Flugan eða kóngulóin?

Ég hef verið í klemmu undanfarið.  Svona hugsunarklemmu.  Í fannfergi huga míns er lítill staður sem hefur hugsanlega skemmst í fótbolta.  Ég fæ svona hugsunarklemmur sem breytast í þráhyggju og lýsir sér þannig að ein hugsun er ríkjandi allan daginn og heldur vöku fyrir mér á nóttunni.  Þetta eru yfirleitt spurningar sem ég næ ekki að svara en skipta akkúrat engu máli.  Dæmi um hugsunarklemmu er: hvort kom á undan hænan eða eggið?.  En þessi spurning er ekki að bögga mig þessa dagana heldur kongulær og flugur.  Ég skal útskýra. 
Á einum stað í húsinu mínu er mikið af flugum og þá fór ég að hugsa!!  Ef að það er mikið af flugum einhvers staðar þýðir það þá að það er lítið eða mikið af kongulóm????????.  Ef ég hugsa útfrá flugum þá myndi ég hugsa "hér er gott að vera hér eru engan kongulær sem éta mig" og þarafleiðandi eru engar kongulær!  En ef ég hugsa útfrá kongulóm þá myndi ég segja "hér eru fullt af flugum best að vera hér" og því væru þar einnig mikið af kongulóm!  Því hvort hefur meira vægi - gæði og eftirspurn eða örugg afkoma.  Ég er búin að velta þessu fyrir mér lengi.  Ef ég væri fluga þá myndi ég velja stað sem væri öruggur en ef ég væri konguló þá myndi ég velja mér stað sem væri með nóg æti.  Mætti því segja að flugur sækja í stað þar sem þær væru öruggar og gæði staðarins og eftirspurn þeirra eftir hita, ljósi næringu væri í jafnvægi og mætti þá einnig bæta við að kongulær sækja líka í stað sem þær væru öruggar og eftirspurn þeirra eftir næringu, hita og ljós væri í jafnvægi.  Mætti þá segja að þar sem eru fullt af flugum að þar eru fullt af kongulóm????    ARRRGGG ég er að verða vitlaus á þessu.  
Kannski eru flugur hópdýr og eru alltaf margar saman og því er ekkert að marka þetta og kongulær eru lónerar og éta bara á leiðinni til Mekka og engin rútína eða rythmi stjórnar ætisleit þeirra.    Kannski eru flugur eingöngu fórnarlömb og sáttar við slíkt og kongulær rándýr og sáttar við sitt.  Anskotinn!!!  Ég verð að fá niðurstöðu í þetta!  Þetta er eins og svona spurning á IQ prófi þar sem segir alltaf "Sumir flangar eru siltur, og sumar siltur eru melsur sem þýðir að sumir flangar eru melsur!  Rétt eða rangt?   Við getum heimfært þetta IQ próf yfir á sumar flugur eru í glugganum, og í sumum gluggum eru kongulær og því borða sumar kongulær sumar flugur!!  Nei nú er ég hætt....ég er að drepa sjálfan mig hérna.....HJÁLPPPPPPP

Hvert fara sokkar?

Jæja samsærisblogg.  Mig langar að ræða hér um vandamál sem ég held að engin þori að ræða um.  Allir berjast við þetta en engin er tilbúin að opna þessa umræðu.  Kannski af hræðslu við að kommenta kerfið hrynji eða eitthvað álíka.  En nú keyri ég á vaðið.  Sokkar hverfa!  

Í nokkur ár eða frá því að ég byrjaði að þvo þvotta hef ég tekið eftir að sokkar hverfa sporlaust.  Hef lifað í gremju og sárindum en aldrei þorað að gera eitthvað í málunum.  Maður setur sokka í þvottavélina segjum til dæmis 5 pör og þegar þvottavélin er búin eru kannski 7 sokkar eftir og þrír missing in action.  Ég er með sokkaskúffu troðfulla af sokkum sem passa ekki saman.  Um helgina ákvað ég að rannsaka þetta mál.  Ég tók tvenn sokkapör (treysti mér ekki í meira), tvær peysur, gallabuxur, bol og náttbuxur í þvottavélina.  Ég lokaði vélinni og fór inní eldhús.  Ég var búin að banna fólki að tala við mig meðan vélin vann og sat og hlustaði og fylgdist með mannaferðum úr og í þvottahúsið.  Þegar vélin var búin stóð ég tilbúin fyrir framan kýraugað og opnaði hurðina varlega.  "hissss" andvarpaði þvottavélin og ég tók fatavöndulinn varlega og setti í fötu.  Meðan vélin hafði verið að vinda hafði ég undirbúið baðherbergið sem rannsóknarstofu.  Þvegið það hátt og lágt og sótthreinsað veggi og verkfæri.  Ég hafði tekið gamla krossviðsplötu og lagt hana á baðið.  Ég gekk varlega með fötuna inná bað og hellti úr fötunni á plötuna.  Buxur, bolur, peysur og annað var á sínum stað og aðskilda ég stóru fötin frá litlu rúsinunum sem virtust vera sokkar.   Ég bilaðist!!!  Þarna voru þrír sokkar.  Það vantaði einn.  Ég leytaði í fötunum sem vöðluð lágu til hliðar en fann ekkert.  Kíkti aftur í fötuna, ekkert.  Skreið sömuleið og ég hafði farið úr þvottahúsinu og ekkert.  Þreifaði á þvottavélinni og ekkert.  Það vantaði einn sokkinn!  Hvað er að gerast.  Sokkurinn hefur ekki fundist og nú er ég með enn einn sokkinn sem ekki hefur félaga í sokkaskúffunni.  Það er margt sem þýtur í gegnum hausinn á mér núna og ég er óttaslegin.  Hvert fara sokkar?  Ég ætla að gera aðra tilraun á morgun þar sem ég ætla að taka alla sokkaskúffuna og setja svona staðsetningarpinna við hvern og einasta.  Ég skal láta ykkur vita síðan hvert sokkar fara og hverjum er um að kenna að þeir hverfa svona.


Ég er með Magma hval í fjörunni!

Einu sinni fannst mér svakalega gaman að hafa hvalreka í fjörunni fyrir utan húsið mitt.  Fannst ég ríkari af ævintýrum og kunni vel að meta þennan gjörning náttúrunnar.  Núna nokkrum mánuðum seinna finnst mér þetta ekkert spes lengur.  Lyktin af honum svipar til Magma málsins og hvalurinn rotnar hægt og rólega með allri tilheyrandi skítalykt.  Það gýs reglulega upp svona Geysir Green nálykt og gömul Glitnis húðin á háhyrninginum verður gulari og gulari.  Ég fattaði bara í morgun hvernig málunum er háttað.  Hvalurinn í Höfnum hefur verið að rotna hér á Reykjanesinu frá því að Magma málið kom í umfjöllun og finnst skítafýlan af honum alla leið til Reykjavíkur. 

Ég hafði samband við Heilbrigðiseftirlitið sem ætlar strax í málið og biðja Reykjanesbæ að draga hann til baka, svona alveg eins og þeir ættu að gera varðandi þetta Magma mál.  Svo Hvalrekinn í fjörunni er persónugervingur hins rotnandi meirihluta sem núna í tvær vikur hefur verið að spá í því hvernig hægt sé að draga líkið frá landi, hvort það eigi að sprengja hann með dínamíti eða grafa hann í sandinn. 


Krossfestingu frestað um óákveðin tíma!

Ok ég veit ekki hvort það hafi eitthvað með stærð mína að gera en svo virðist vera sem ég vanmet reglulega sentimeterinn.  Finnst sentimeter frekar lítil stærð.  Þess vegna þegar ég ákvað að smíða snúrur og var í húsasmiðjunni og maðurinn spurði mig hvort 180 senitmetrar væru ekki nóg horfði ég á hann og sagði "það er ekki neitt ég vil 2x300 sentimetra".   Þegar ég kom heim og skar í bútinn til að gera þverslánna ákvað ég að 62 sentimetrar væru það eina rétta frá þverslánni og upp.  Eftir nokkra klukkutíma vinnu þar sem mér leið eins og ég væri að höggva kanó úr timbri rétti ég snúrustaurinn við og pílagrímar alls staðar úr heiminum pöntuðu flugmiða og byrjuðu að kyrja bænir í átt að Höfnum.  Snúrustaurinn varð að krossi!   
Vonandi kemur Daníel erkivinur í heimsókn á morgun með vélsögina og Golgatahæðin mun hverfa af Reykjanesi.  Ég eyðilagði öxina á þessu og hinn páskanærbuxnahaldarinn verður að bíða betri tíma þar sem ég móðgaði sjálfan mig svo mikið með því að vera ófær um að gera snúrustaur!  Í hverju er ég eiginlega góð í?
KrossfestingINRI

Sigrum grillveisluna!

Ekki misskilja mig ég ELSKA Eurovision.  Er búin að hlusta á öll lögin nokkrum sinnum og dæma þau svona innbyrðis fyrir mig.  Ég er ekkert að kíkja á uppbyggingu laga, texta eða nokkuð annað.  Uppáhalds lögin mín eru með hækkun, vindvélum eða háls og mjaðmahnykkjum.   Ég og mamma töpuðum okkur á þriðjudaginn og dönsuðum um alla stofuna þangað til hundurinn missti vitið og Thelma systir sagði sig úr fjölskyldunni, Auðunn og Hannes sködduðust andlega og Brynjar Logi hætti við langþráðan draum að verða djazzballetdansari.  En......

Nú er Vísir að tapa sér með litlum fréttum um hvað Hera er að gera allt vitlaust í Osló og hvað allir eru búnir að selja sál sína svo ást sundlaugavarðar vinni.  Fréttamiðlarnir okkar eru að tapa sér yfir því að núna vinnum við loksins.  Ég verð pirruð!  Afhverju getum við Íslendingar ekki bara tekið þátt í grillveislunni eins og allir hinir.  Afhverju þurfum við að vinna allt?  Við þurfum alltaf að vera sætasta stelpan í partýinu, eða fyndnasti gaurinn við grillið eða sterkasti aðilinn með kolinn.  Við erum held ég óþolandi!  Við komumst uppúr forréttinum og eigum bara að njóta þess að sitja með sömu grillpinana.  Við pumpum upp þjóðarstoltið yfir eðlileg mörk svo endum við inná klósetti í grillveislunni drullufull og komin á trúnó við gestgjafann.  Þetta er ekki eðlilegt!!    Eurovision er grillveisla og okkur var boðið og fólk fílaði okkur.  Ef við vinnum frábært ef ekki þá frábært!  Albanía er hvort eðer með LAAAANNNGGG flottasta lagið.     Ég spái því að á Laugardaginn verði úrslitin svona

1. Danmörk
2. Albanía
3. Serbía
4.Germany
Síðan mun Moldavía, Frakkland, Grikkland, Ukraína og Armenía raða sér inní þetta. 

Ekki misskilja mig!  Ég held að Ísland nái langt en mér finnst við nú hafa verið okkur til sóma nú þegar!   Frábær flutningur hjá henni Heru!  Hún er bara snillingur og er velkomin í grillveislu til mín í Höfnum hvenær sem er! 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband